Lerkiyrkið Hrymur gott dæmi um árangur

Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands boða til málþings um kynbætur á yndisplöntum fyrir Ísland. Málþingið verður föstudaginn 4. apríl frá kl. 9:30 til 16:30 í fundarsal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1, Reykjavík.

Markmið málþingsins er að vekja áhuga ræktunarfólks á plöntum sem ætlaðar eru til yndis og nytja og eru markvisst aðlagaðar íslenskum aðstæðu með kynbótum. Á málþinginu verður fjallað um  reynslu sem þegar er fengin af plöntukynbótum á Íslandi og hugað að framtíðarmöguleikum hérlendis fyrir garðyrkju og skógrækt.  Hér er einstakt tækifæri fyrir allt áhugafólk um framfarir í plöntuúrvali að kynna sér hvaða leiðir eru færar til kynbóta og læra af reynslu annarra.

Í upphafi málþingsins flytur kanadíski grasafræðingurinn Claire Laberge erindi um sögu kynbóta og framfara í ræktun yndisplantna í Kanada á síðustu öld. Reynsla Kanadamanna af kynbótum á garðrósum og ávaxtatrjám fyrir mjög erfið ræktunarskilyrði á gresjum Kanada getur verið okkur fyrirmynd og hvatning því þar hafa orðið gífurlegar framfarir á síðustu áratugum. Hafa Íslendingar þegar notið árangurs af því starfi, ekki síst í rósarækt,  þótt ræktunarskilyrði séu hér að mörgu leyti allt önnur og kalli á eigin tilraunir til aðlögunar á eftirsóknarverðum tegundum. Á ráðstefnunni verður fjallað um reynslu úr kynbótaverkefnum hérlendis á vegum einstaklinga og stofnana sem vísað geta veginn fram á við.

Meðal spurninga sem teknar verða til umræðu er hvernig svo fámenn þjóð getur með skipulegum og hagkvæmum hætti tekist á við tímafrek langtímaverkefni sem plöntukynbætur eru. Velt verður upp möguleikum á samvinnu áhugafólks og samtaka þeirra við opinberar fagstofnanir sem veitt geta leiðsögn og haldið utan um þekkingu sem safnast og miðlað henni til framtíðar.

Gott dæmi um skjótan árangur í plöntukynbótum hérlendis er ræktun lerkiyrkisins Hryms sem Þröstur Eysteinsson hefur haft umsjón með á vegum Skógræktar ríkisins. Þar er komið yrki af rússa- og evrópulerki sem hentar þar sem rússa- og síberíulerki hefur ekki þrifist vel hérlendis, nálægt sjó á Suður- og Vesturlandi. Þröstur segir einmitt frá þessu kynbótastarfi á málþinginu á föstudag. Brynjar Skúlason fjallar líka um kynbætur á fjallaþin, Halldór Sverrisson um asparkynbætur og Þorsteinn Tómasson um birkikynbætur sem gefið hafa spennandi beinvaxin yrki eins og Emblu og Kofoed.

Málþingið er haldið í húsakynnum Garðyrkjufélags Íslands í Síðumúla 1 (gengið inn frá horninu við Ármúla). Mæting og afhending gagna hefst kl. 9:30 en þingið verður sett kl. 10:00 og stendur til kl. 16:30. Þátttökugjald er kr. 9.900 fyrir utanfélagsmenn Garðyrkjufélags og Skógræktarfélaga en kr. 6.900 fyrir félagsmenn.

Skráning er í tölvupósti á netfang Garðyrkjufélagsins:  gardurinn@gardurinn.is

Dagskrá málþingsins má sjá hér.