Sigríður Hrefna Pálsdóttir, meistaranemi í skógfræði við LbhÍ.
Sigríður Hrefna Pálsdóttir, meistaranemi í skógfræði við LbhÍ.

Vonast til að betri upplýsingar geri reitina aðgengilegri og auki notkun þeirra

Sigríður Hrefna Pálsdóttir, skógfræðinemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, vinnur að meistaraverkefni þar sem hún skrásetur skógarreiti ungmennafélaga sem ræktaðir voru vítt og breitt um landið frá fyrri hluta síðustu aldar og fram eftir öldinni. Verkefnið nýtur styrks frá norrænu skógrannsókna­stofnuninni SNS og NordGen Forest, skógar­sviði norræna genabankans NordGen.

Í samtali við vef SNS segir Sigríður að verk­efnið hefði ekki verið mögulegt án styrksins. Sem nemi hefði hún ekki haft efni á því að fara um allt land og mæla upp reitina sem margir hverjir voru ræktaðir af ungu fólki fyrir um einni öld.

Gagnasöfnun

Reitunum er lýst og þeir kortlagðir. Með GPS-staðsetningarhnitum verður auð­veld­ara að finna reitina og skilgreina þá sem eru aðgengilegastir og henta fólki best til útivistar. Markmið verkefnisins er einnig að komast að því hvernig reitirnir eru á sig komnir, hvaða tegundir vaxa í þeim, hvernig sé háttað merkingum, heimreiðum, bílastæðum og öðru sem skiptir máli fyrir ferðafólk og gesti.

Sögulega er ræktun ungmennafélagsreitanna og örlög þessara reita líka mikilvæg enda stór þáttur í sögu ungmenna­­hreyfingarinnar. Í þessum reitum búa líka möguleikar til bættrar lýðheilsu ef auka má notkun þeirra til útivistar og hreyfingar.

Sigríður segir að sjálfri finnist henni mjög áhugavert að sjá hvernig þessum skógarreitum hefur reitt af við aðstæður og veðurskilyrði sem eru mjög ólík eftir því hvar borið er niður á landinu.

Aðgengilegt á vefnum

Lokaafurð verkefnisins verður vefsíða þar sem niðurstöðurnar verða gerðar aðgengi­legar. Þar verða upplýsingar um hvern reit með ljósmyndum og hringljósmyndum sem teknar eru í 360 gráður og gera fólki kleift að svipast um á staðnum í allar áttir hvort sem er úr tölvunni heima eða snjalltækinu hvar sem er. Vonast er til þess að vefur þessi muni stuðla að því að ungmenna­félags­reitir um allt land verði sýnilegri og aðgengilegri en jafnframt segist Sigríður vonast til þess að fleiri reitir finnist sem ekki hafi komið í leitirnar í verkefninu enn sem komið er.

„Líklegt er að við okkur hafi ekki tekist að finna upplýsingar um alla reiti sem gróðursett var í á þessum árum. Vonandi tekst okkur að finna meira með hjálp vefsíðunnar,“ segir Sigríður. Á vefsíðunni verður Íslandskort með öllum fundnum reitum og ef gestir síðunnar finna ekki á kortinu reiti sem þeir telja sig vita um verða hæg heimatökin að koma upplýsingum á framfæri við Sigríði sem kveðst meira en fús til að kortleggja fleiri svæði, lýsa og flokka.

Niðurstöður Sigríðar Hrefnu Pálsdóttur um ungmennafélagsreiti landsins verða kynntar á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin verður á Akureyri í apríl á nýju ári.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson