Christine Palmer við mælingar á rýru og rofnu landi í Esjuhlíðum þar sem gróðursett hefur verið gren…
Christine Palmer við mælingar á rýru og rofnu landi í Esjuhlíðum þar sem gróðursett hefur verið greni. Ljósmynd: Kristján Jónsson

Þess er vænst að mælingar sem nú fara fram á öndun jarðvegs í ungum og eldri skógum bæti gögn um kolefnisbúskap skóganna og þar með vitneskju um hlutdeild jarðvegsins í kolefnisbindingu íslenskra skóga. Mælingarnar fara fram í bæði birki- og greniskógum.

Sveppir og aðrar jarðvegsörverur hafa mikil áhrif á það hvernig skógarplöntum gengur að koma sér í vöxt og ráða líka miklu um lífsmöguleika trjánna og vaxtarþrótt. Örverurnar hjálpa trjánum við upptöku vatns og næringarefna og að byggja upp mótstöðuafl gegn sýklum og annarri óværu. Heilbrigt jarðvegslíf skiptir líka miklu máli um uppbyggingu jarðvegsins og þar með hversu mikil umsetning verður þar af ýmsum efnum, meðal annars kolefni. 

Mælitækið sem notað er við öndunarmælingar á skógarjarðvegi. Mynd af vef licor.comChristine Palmer, dósent við Castleton-háskólann í Vermont í Bandaríkjunum, vinnur nú að jarðvegsrannsóknum í íslenskum skógum í samvinnu við Skógræktina. Meðal annars notar hún mælitæki af gerðinni Li-Cor LI-6400 til að mæla öndun jarðvegs í skóglendi. Hugmyndin með þessum rannsóknum er sú að fylgjast með unggróðursetningum, bæði í birkiskógi og greniskógi, bera þær saman við eldri skóga sömu tegunda og safna upplýsingum um inn- og útstreymi lofttegunda í jarðvegsvistkerfunum. Þar er ekki síst átt við uppsöfnun eða losun kolefnis. Virkni örvera er mjög háð hita- og rakastigi í jarðvegi og því hafa líka verið settir út síritar til að skrá hitastig og raka nokkrum sinnum á klukkutíma. Þannig má samhæfa öndunarmælingarnar við hitastigið og setja upp líkan sem gefur mynd af sveiflum í öndun yfir árið.

Til þessara rannsókna hafa verið settir út mælifletir í gömlum gróðursettum birkiskógi og þéttum sitkagreniskógi. Með því ætti að fást samanburður á ungu birki í rofnu landi og eldra birki annars vegar og ungum greniskógi í rofnu landi við mjög gamalt greni í þéttri gróðursetningu hins vegar. Niðurstöðurnar ættu að gefa upplýsingar um hversu virkar jarðvegsörverurnar eru í þessum kerfum og hversu mikið kolefni berst inn í þessi jarðvegsvistkerfi og hversu mikið kolefni losnar út úr þeim. Mikið er óunnið í jarðvegsrannsóknum á Íslandi og meðal annars vantar betri gögn um kolefnisbúskap í jarðvegi, ekki síst í skógarjarðvegi. Aukin vitneskja um þetta bætir gögn um kolefnisbúskap skóganna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Christine Palmer, eða Stínu eins og hún vill láta kalla sig, með tækið góða í hlíðum Esju þar sem greni hefur verið gróðursett á rofnu og mjög rýru landi.

Texti: Pétur Halldórsson