Mynd: Pétur Halldórsson
Mynd: Pétur Halldórsson

Birt hefur verið á vef Skógræktarinnar lýsing fyrir gerð landsáætlunar í skógrækt. Óskað er eftir athugsemdum við lýsinguna. Skilafrestur athugasemda er til 28. janúar.

Landsáætlun í skógrækt er unnin skv. 4. grein laga um skóga og skógrækt nr 33/2019. Í samræmi við lögin skipaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verkefnisstjórn landsáætlunar í skógrækt með erindisbréfi 28. júní 2019. Ber verkefnisstjórnin ábyrgð á gerð áætlunarinnar og nýtur við það stuðnings frá sérfræðingum og öðru starfsfólki Skógræktarinnar.

Samkvæmt lögum nr. 33/2019 er skógræktarstjóri formaður nefndarinnar og einn fulltrúi er tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Aðrir fulltrúar í verkefnisstjórn eru skipaðir af ráðherra án tilnefningar en tveir þeirra skulu vera faglærðir í skógrækt.

Verkefnisstjórnin vinnur í umboði ráðherra og skilar tillögum að landsáætlun í skógrækt til hans. Ráðherra kynnir áætlunina fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Áætlunin öðlast síðan gildi með samþykki ráðherra.

Nú er lokið fyrsta skrefinu sem kveðið er á um í lögunum. Þar segir að í upphafi vinnu að landsáætlun í skógrækt skuli leggja fram tvenns konar lýsingu. Annars vegar er lýsing þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landsáætlunar í skógrækt, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun stefnunnar. Hins vegar er matslýsing sem er upphaf að ferli umhverfismats. Þar kemur fram yfirlit um efni áætlunar, tengsl við aðrar áætlanir, upplýsingar um grunnástand, umhverfisþætti, þætti sem taldir eru valda áhrifum; viðmið og umhverfisverndarmarkmið og að lokum umfjöllun um matsferlið og samráðsaðila.

Þessum tveimur lýsingum ber að nokkru leyti saman og eru þær því settar fram í einu skjali sem hlekkur er á hér að neðan. Athugasemdum við þessar lýsingar ber að skila til Hreins Óskarssonar, ritara verkefnisstjórnar, á netfangið hreinn@skogur.is fyrir 28. janúar 2020. Lýsingin er einnig kynnt áSamráðsgátt stjórnvalda þar sem einnig gefst færi á að senda inn athugasemdir.

Í verkefnisstjórn landsáætlunar í skógrækt sitja:

  • Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, formaður
  • Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor
  • Jón Ásgeir Jónsson skógfræðingur
  • Maríanna Jóhannsdóttir skógarbóndi
  • Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur
  • Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur
  • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur, tilnefnd af SÍS

Ritari verkefnisstjórnar er Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.

Texti: Pétur Halldórsson