Með samtakamætti má vinna skemmtileg verkefni með við úr skógi

Í lúðrasveit þorpsins Krumbach í Austurríki eru handlagnir menn sem útbjuggu skífur á eitt þeirra strætóskýla sem hönnuð voru og sett upp í samvinnuverkefni heimamanna og arkitekta víða að úr heiminum. Eitt skýlið hannaði Dagur Eggertsson, arkitekt í Ósló, ásamt félögum sínum og viðarskífurnar utan á það útbjuggu iðnaðarmenn sem einnig leika í lúðrasveit þorpsins.

Við sögðum frá þessu samvinnuverkefni um biðskýlin í Krumbach í gær hér á síðunni og þar kom fram að einn Íslendingur hefði verið meðal arkitektanna, áðurnefndur Dagur Eggertsson sem er annar stofnenda arkitektastofunnar Rintala Eggertsson Arcihtects í Ósló. Dagur sendi okkur myndirnar sem hér fylgja og segja fleira en mörg orð um verkefnið. Í myndbandinu hér fyrir neðan má svo fylgjast með því hvernig viðarskífurnar utan á skýlið voru útbúnar. Þar áttu hlut að máli smiðir sem spila líka í lúðrasveitinni sem heyrist og sést í upphafi myndbandsins.

Dagur Eggertsson kemur annað slagið til Íslands til að kenna og prófdæma við Listaháskóla Íslands. Í samtali við vefinn skogur.is sagðist Davíð oft taka þátt í svona „hands-on“ vinnusmiðjum með arkitektanemum þar sem hönnuð séu og byggð rými, iðulega í samvinnu við kaupendur viðkomandi mannvirkja. „Það væri gaman að gera eitthvað úr viði á Íslandi,“ segir hann. „Ég var í Bjarnarfirði í fyrra með nemendur frá Listaháskóla Íslands þar sem við hönnuðum smá skýli úti í náttúrunni. Þar notuðum við það sem við náðum í af rekaviði.“ Myndin hér til hliðar er af einu þessara skýla. Dagur segir að til dæmis væri spennandi að koma til Íslands og vinna með skífusög Guðmundar Magnússonar, trésmiðs á Flúðum, sem er eina slíka vélin á Íslandi og getur búið til skífur ekki ósvipaðar þeim sem settar voru á biðskýli Dags og félaga í Krumbach.

Biðskýlið í Krumbach sem við sjáum hér á myndunum er bæði skemmtileg hönnun og í verkefninu var líka tekið gott tillit til þess hvar biðskýlið stendur. Á efri hæðinni er lítil stúka þar sem sitja má og fylgjast með því sem er í gangi á íþróttavellinum sem skýlið stendur við. Bráðsniðugt.


   

 

   

  

 



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir birtar með góðfúslegu leyfi Dags Eggertssonar.