Loftmynd af Akranesi úr safni Loftmynda ehf.
Loftmynd af Akranesi úr safni Loftmynda ehf.

Loftmyndir ehf. og Landmælingar Íslands hafa undirritað tímamótasamning um aðgengi að loftmyndum Loftmynda ehf. fyrir allar A-hluta ríkisstofnanir. Þetta er fagnaðarefni fyrir skógrækt á Íslandi því loftmyndir verða æ mikilvægara tæki til áætlanagerðar í skógrækt, við skógmælingar og úttektir. 

Frá samningnum er sagt í frétt á vef Landmælinga Íslands. Með honum sé tekið stórt skref í átt að samræmdu aðgengi að grunngögnum. Loftmyndir eru m.a. nýttar til kortlagningar, skipulagsgerðar og hönnunar af margvíslegum toga.

Samningurinn, sem gerður er til eins árs til að byrja með, veitir ríkisstofnunum möguleika á að nýta loftmyndir á vefjum sínum auk þess að vinna landupplýsingar ofan á þær. Honum er ætlað að styrkja enn frekari uppbyggingu landupplýsinga á Íslandi. Í þeim efnum er margt í deiglunni og ýmis tækni í þróun sem gerir bæði kleift að gefa betri upplýsingar og getur sparað mikinn tíma fé og fyrirhöfn, til dæmis við skógmælingar og úttektir á skógræktarsvæðum.

Þessa dagana er verið að kynna þeim stofnunum sem þegar eru í samningssambandi við Loftmyndir ehf. hvað í nýja samningnum felst og hver næstu skrefin verða. Jafnframt verður öðrum stofnunum kynnt fyrirkomulag aðgengisins.

Texti: Pétur Halldórsson