Ég var að sækja mér innblástur í nýjustu ljóðabók Sigurðar Pálssonar, ?Ljóð tíma vagn? (JPV forlag). Mér sýnist nauðsynlegt hverjum skógræktarmanni að hafa hana innan seilingar á náttborðinu. Í ljóðunum sem þarna er að finna innanborðs er víða ort á yfirvegaðan en upptendraðan hátt um tré, skóga og skógrækt. Hér birtast tvö ljóðanna, að sjálfsögðu án leyfis höfundar.
Með bestu jólakveðjum,
Aðalsteinn

Tvö ljóð eftir Sigurð Pálsson (Úr ?Ljóð tíma vagn?, 2003)

Ljósmyndir

  Skógrækt á það sameiginleg með tónlist að fara fram
í tíma sem líður.
  Hljómur, sproti. Ekkert nema von sem á að þróast.
Vonandi vex þetta.

  Ljósmynd af skógi: dásamleg þversögn.
  Ljósmynd: dauðakyrrt augnablik, kyrrsetning mikillar
hreyfingar sem glöggt má finna fyrir.

  Skógur, tónlist: hvílík starfsemi!
  Alltaf að, alltaf að ...

  Kannski þess vegna sem ljósmyndir af hljóðfæra-
leikurum að spila eru svona gróskumiklar, formin öll
eitthvað svo dásamlega kvenkyns, jafnvel skeggjaðir
náungar verða eins og venusarleg tímaglös.

  Alltaf að.

Skógrækt

  Úr því talið berst að skógrækt:
  Tengslin milli yfirvegunar og upptendrunar þurfa nauð-
synlega að vera órofa.

  Án annars er hitt til einskis.

  Upptendrun án yfirvegunar til lítils gagns. Brenna upp
eins og flugeldur.

  Sömuleiðis lítið vit í að vera yfirvegaður ef vantar alla
upptendrun. Kviksetning.  

  Þetta kennir skógræktin.