Hlúð að plöntunum
Hlúð að plöntunum

Safna fyrir tækjum í Heilsugæsluna í Búðardal með gróðursetningu aspar

Þessa dagana er unnið að gróðursetningu alaskaaspar í landi Laxaborgar í Dalabyggð. Lionsmenn vestra leggja gjörva hönd á plóginn og safna um leið fyrir tækjum í Heilsugæslustöðina í Búðardal. Með þessari gróðursetningu er fullgróðursett í land Laxaborgar.

Lionsklúbburinn Búðardals leggur Skógrækt ríkisins lið með þessu starfi í Laxaborg. Verið er að planta alaskaösp af nokkrum klónum í  gamalt tún. Fyrst er borað fyrir plöntunum með staurabor og síðan koma Lionsmenn á eftir og gróðursetja í holurnar. Alls er verða settar niður 3.445 aspir í umrætt svæði og er það lokagróðursettning í Laxaborg. Þar með telst landið fullplantað.

Þetta er gott samstarf, segir Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, og laun Lionsklúbbsins fyrir verkið renna að sjálfsögðu til góðgerðarmála. Nú er verið að kaupa tæki fyrir heilsugæsluna í Búðardal og þar kemur framlag Lionsklúbbsins sér afar vel.

Vaskur hópur manna mætti til starfa í Laxaborg í gær, miðvikudaginn 10. júní, og búist er við fleirum í dag, fimmtudag. Á meðfylgjandi myndum má sjá hópinn  að störfum í gær.

Myndir og texti: Valdimar Reynisson