Antonio hróðugur að lokinni gróðursetningu. Forvitnilegt væri að vita hvort einhver hefur gróðursett…
Antonio hróðugur að lokinni gróðursetningu. Forvitnilegt væri að vita hvort einhver hefur gróðursett meira en sex þúsund trjáplöntur hérlendis á einum degi. Þangað til annað kemur í ljós má telja nokkuð víst að þetta sé Íslandsmet.

Gróðursetti sex þúsund trjáplöntur á einum degi

Flest bendir til þess að franski gróður­setningarmaðurinn Antoine Paul Didier Michalet hafi sett Íslandsmet í gróður­setn­ingu trjáplantna miðvikudaginn 28. júní þegar hann setti niður rétt rúmar sex þúsund plöntur í jarðunnið land á Valþjófs­stöðum í Núpa­sveit. Gróðursetningin tók um fimmtán klukkustundir með hvíldum.

Lausleg eftirgrennslan bendir í það minnsta til að ekki hafi einn maður áður sett niður fleiri plöntur á einum degi hérlendis. Daginn sem Íslandsmetið var sett gróðursetti Antoine 5.963 lerkiplöntur úr 67 gata bökkum en af því að þar með náðist ekki alveg markmiðið að gróðursetja sex þúsund plöntur á einum degi var einum bakka af furu í fjörutíu gata bakka bætt við. Endanleg tala varð því 6.003 plöntur. Antoine segist hafa verið samanlagt að verki í ellefu og hálfa klukku­stund en að auki hafi hann tekið sér hlé til að borða og hvílast nokkrum sinnum, samanlagt í þrjá og hálfan tíma. Samtals var hann því á skógræktarsvæðinu í 15 klukkutíma þann daginn og geri aðrir betur.


Björn Halldórsson, skógar- og sauðfjár­bóndi á Valþjófsstöðum, segir að skipulagt skógræktarsvæði á Valþjófsstöðum sé 112 hektarar en á jörðinni er líka stunduð umfang­smikil uppgræðsla. Alls gróðursetti Antonio á síðustu dögum 17.233 plöntur í land Valþjófsstaða og segir Björn mikinn feng að því að fá svo öflugan verktaka til gróður­­setn­­ing­ar.

Landið sem metgróðursetn­ingin fór fram á er jarðunnið mólendi. Það var unnið með endurbættum jarðtætara sem talsvert hefur verið notaður til jarðvinnslu skógræktar­svæða í Þingeyjar­sýslum og víðar. Flestir hnífarnir hafa verið teknir úr honum og gerðar breytingar svo að eftir vélina kemur mjó og slétt rönd, rúmt fet á breidd. Ef vel tekst til við jarðvinnsluna er auðvelt að gróður­setja í röndina og þarf gróður­setn­ingar­maður­inn ekki að velta vöngum yfir staðsetningu hverrar plöntu. Nóg er að taka tvö stór skref til að hæfilegt bil verði á milli. Rendurnar eftir tætarann á svæðinu sem Antoine gróðursetti í á Valþjófsstöðum eru 500-700 metrar að lengd og hæfilegt bil á milli þeirra, um 1,8 metrar. Aðstæður voru því góðar til að setja met og veðrið líka hið besta.

Antoine gróðursetur með kanadískri skóflu sem gjarnan eru kallaðar svo en ekki geispu eins og algengast er orðið hérlendis. Ef plönturnar eru stinnar og með þéttan rótarhaus tekur hann þær úr bökkunum og raðar í sérstaka sekki sem hann ber um mittið. Með þessu móti segist hann ná upp meiri hraða í gróðursetningunni, jafnvel þótt hann þurfi að beygja sig með hverja plöntu.

Vant skógræktarfólk hlýtur samt að spyrja sig hvort Antoine hafi ekki fengið hjálp til að ná þessum mikla fjölda gróðursettra plantna á einum degi. Aðspurður segir Björn að Antoine hafi verið einn að verki sjálfan gróðursetningardaginn. Björn segist þó hafa farið kvöldið áður ásamt Eiríki syni sínum og komið plöntubökkunum fyrir með 100-150 metra millibili umhverfis gróður­setningarsvæðið, tíu bökkum á hverjum stað. Sömuleiðis hafi Antonie sett plöntur í bíl sinn, lítinn jeppa, eins og hægt var að koma þar fyrir. Meðan á gróðursetningunni stóð naut hann hins vegar engrar aðstoðar.

Antoine fer víðar um landið og gróðursetur fyrir skógarbændur í þessari atrennu. Til dæmis setti hann niður um 2.000 plöntur í Sandfellshaga meðan hann staldraði við í Núpasveitinni og svo vinnur hann líka að gróður­setningum á Bakásum í Langadal. Þá er Antoine líka vanur grisjunarmaður þannig að ef skógarbændur vantar liðsauka er aldrei að vita nema hann sé fáanlegur í vinnu. Fáir ef nokkrir standa honum á sporði í gróðursetningum í það minnsta eins og nýsett Íslandsmetið ber vitni um.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Björn Halldórsson