Nýtt rannsóknarverkefni

Fulltrúar Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landbúnaðarháskóla Íslands og Álfaráss h.f. undirrituðu 28. febrúar samning um rannsóknir á lifun og æskuþrótti skógarplantna í landi Hvamms í Landssveit. Tilgangurinn með verkefninu er að meta takmarkandi þætti fyrir líf og vöxt skógarplantna, þróa mælitækni til að sjá fyrir takmarkandi þætti á vaxtarstað trjáplantna og setja fram tillögur um bætta ræktunartækni. Í Hvammi í Landssveit verða bornar saman mismunandi aðferðir landvinnslu fyrir gróðursetningu, auk þess sem áhrif þess að smita plöntur með skógarjarðvegi verða könnuð. Þá verða umhverfisþættir, svo sem jarðvegshiti, lofthiti og súrefni í jarðvegi mældir. Í lok vaxtartímans verður lifun og ástand trjáplantna metið, þ.m.t. fosfórupptaka, lífmassi, svepprót og afföll vegna ranabjöllu.

Undirritun samningsins markar upphaf verkefnisins og verður mestur þungi í vinnunni sumurin og haustin 2014 og 2015. Þó er gert ráð fyrir að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í lok árs 2014. Álfarás h.f. styrkir rannsóknina, auk þess að leggja til land en trjáplöntur koma frá Suðurlandsskógum.

Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samningsins í bókasafninu á Mógilsá, frá vinstri: Edda Sigurdís Oddsdóttir (Mógilsá), Þorbergur Hjalti Jónsson (Mógilsá), Hrönn Guðmundsdóttir (Álfarás hf.), Agnes Geirdal (Álfarás hf.), Úlfur Óskarsson (Landbúnaðarháskóla Íslands) og Arnór Snorrason (Mógilsá)