Rætt við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra í Morgunblaðinu

„Skógar rétt eins og fiskimiðin eru auðlind, lífræn innistæða sem þarf í senn að við­halda og nýta skynsamlega,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri meðal annars í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Eftir rúman áratug fari skógar­bænd­ur að fá tekjur af skógum sínum sem munar um. Hann vonast líka til þess að Parísar­ráð­stefn­an verði til þess að skógræktarstarf fái meiri skilning.

Viðtal Sigurðar Boga Sævarssonar blaðamanns við Þröst er á þessa leið:

„Skógar rétt eins og fiskimiðin eru auðlind, lífræn innistæða sem þarf í senn að viðhalda og nýta skynsamlega,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. „Þjóðin öll – en ekki bara útgerðarmenn – nýtur þess þegar vel veiðist og með sama hætti koma tekjur af nytjaskógrækt víða fram. Ætla má að eftir rúman áratug verði skógarbændur í landinu, sem eru alls um 700, farnir að fá tekjur sem munar um. Nú eru bændur að selja viðar afurðir sem kolefnisgjafa í kísilmálmframleiðslu á Grundartanga og svipað fyrir verksmiðju PCC á Húsavík er í skoðun.“

Þröstur Eysteinsson tók við embætti skógræktarstjóra í byrjun þessa árs, einmitt þegar skógræktarstarf í landinu er á tímamótum. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp frá umhverfisráðherra um að ný stofnun, Skógræktin, taki við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt frá 1. júlí á þessu ári. Almenn sátt er um frumvarpið sem ætla má að verði að lögum nú á vorþingi.

Skógar eru samkomustaðir

„Kraftar  skógræktarfólks hafa verið ágætlega samstillir,“ segir Þröstur Eysteinsson.

„Það hefur hins vegar verið Akkilesarhæll að landshlutaverkefnin eru litlar einingar og starfsmenn þar – sem gjarnan eru 3-5 – hafa ekki haft svigrúm til að sinna verkefnum eins og þörf er á. Ég bind því vonir við að með einni stofnun náist meiri kraftur í allt skógræktarstarfið. Við ætlum líka að vanda mjög til verka við sameininguna, ekki bara að landshlutverkefnin verði „límd“ utan á gömlu Skógrækt ríkisins, heldur verður skapað nýtt upphaf.“

Skógar landsins eru fjölsóttir og vörslumenn þeirra, rétt eins aðrir, finna fyrir auknum átroðningi og umhverfisálagi vegna fjölgunar ferðamanna. „Skógarnir sem við höfum umsjón með eru margir hverjir gamlir samkomustaðir og það er langt síðan þróaðar voru aðferðir til að halda umhverfisálagi í lágmarki. Það er ljóst að náttúruperla helst ekki ósnortin ef þangað koma kannski 100 þúsund ferðamenn á ári. Þá þarf göngustígagerð, áburðargjöf og hugsanlega mannvirki.“

Skógræktarstarf hefur margar hliðar. Skógar skapa störf og skila tekjum og eru landprýði. En þeir hafa ekki síður mikið og vaxandi vægi í umhverfismálum í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins.

„Parísarráðstefnan í desember í fyrra kom  loftslagsmálum á dagskrá. Sumir segja að ekki sé annað til ráða en að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en margir telja kolefnisbindingu með skógrækt ekki síðri leið. Á Bretlandseyjum, á Spáni og Portúgal hefur útplöntun verið aukin og skógræktarstarf eflt með tilliti til loftslagsmála. Þá eru Kínverjar mjög öflugir í skógrækt í dag; bæði vegna kolefnisbindingar og eins til að hemja eyðimerkurnar. Í Suður-Ameríku, Afríku og Suðaustur-Asíu hefur fókusinn verið á að draga úr eyðingu regnskóganna,“ segir Þröstur.

Fleiri plöntur verði settar í mold

„Hvað Ísland snertir þá vona ég að skilaboð ráðstefnunnar í París verði til þess að skógræktarstarf fái meiri skilning. Í dag fá Skógræktin, landshlutaverkefni, Hekluskógar og fleiri opinber verkefni um 700 milljóna króna framlag á ári að viðbættum 200 milljónum króna í sértekjur. Fyrir þessa fjármuni eru settar í mold um þrjár milljónir plantna á ári auk alls þess sem gera þarf í umhirðu skóga, rannsóknum og móttöku ferðafólks. Fyrir hrun, þegar við höfðum úr meiru að spila, voru þetta sex milljónir plantna. Vonandi getum við gefið í áður en langt um líður.“

Hver er hann?

Þröstur Eysteinsson fæddist árið 1955 og tók við sem skógræktarstjóri í byrjun þessa árs. Hann er með doktorsgráðu í trjákynbótum frá Maine-háskóla í Bandaríkjunum, er kvæntur, á tvö börn og tvö barnabörn. Þröstur var kennari á Húsavík áður en hann fór í skógfræðinám og hefur verið sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins sl. 20 ár.