Með betri spálíkönum fást nákvæmari tölur um lífmassa í birkiskóglendi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Með betri spálíkönum fást nákvæmari tölur um lífmassa í birkiskóglendi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Englis version

Arnór Snorrason og Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, hafa birt grein í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences þar sem þeir báru saman aðferðir til að reikna út lífmassa birkiskóga. Greinin heitir á ensku Single tree aboveground biomass models for native birch in Iceland.

Eins og segir í íslenskum útdrætti greinarinnar er birki ríkjandi trjátegund í náttúrulegu skóg- og kjarrlendi. Höfundarnir settu fram lífmassaföll fyrir birki sem byggjast á lagskiptu slembiúrtaki úr öllum birkiskógum landsins. Metinn var áreiðanleiki fallanna með öðru gagnasafni úr skógunum. Tekinn var náttúrulegur lógaritmi af raungildum og spágildum og síðan fundið línulegt fall milli þeirra. Skurðpunktur og halli línunnar var borinn saman við línu úr upphafspunkti með hallatölu einn. Metin var skekkja í föllunum út frá hlutdeild tilviljanakenndra frávika af óskýrðum breytileika (Theil’s Ue) og normaldreifingu frávika. Einfalt veldisfall reyndist mjög áreiðanlegt þegar þvermál er mælt við jörðu en föll fyrir þvermál 0,5 m frá jörðu reyndust gefa skekkt gildi.

Bornar voru saman aðferðir með ólínulegu aðhvarfi lífmassa að þvermáli og línulegu aðhvarfi náttúrulegs lógaritma að þvermáli. Seinni aðferðin reyndist gefa betri spálíkön, einkum fyrir grennri tré. Veldisföll með upphafsfasta sem felld eru að þvermáli 0,5 m yfir jörðu reyndust óskekkt fyrir tré með sverari en 50 mm stofn í 0,5 m hæð. Að lokum bentu höfundar á bestu föllin til að áætla lífmassa ofanjarðar í úttektum á íslenskum birkiskógum.

Greinarhöfundar mæla með notkun tveggja tiltekinna spálíkana til almennrar notkunar við mælingar á íslensku birkiskóglendi, eftir því hversu hávaxið eða svert birkið er.

Greinin er á ensku en með íslenskum útdrætti. Hana má finna á vef tímaritsins, ias.is, eða hlaða niður af meðfylgjandi hlekk:

Single tree aboveground biomass models for native birch in Iceland

Frétt: Pétur Halldórsson