Umhverfisáhrif jólatrjánna


Hvort er betra fyrir umhverfið, lifandi jólatré eða gervitré? Um þetta er spurt á hverju ári þegar jólin nálgast og margir halda því fram að gervitré séu betri fyrir umhverfið þegar upp er staðið því þau megi nota árum saman. Lifandi tré séu á hinn bóginn flutt um langan veg, sótt með mengandi tækjum út í skógana, á þau borinn tilbúinn áburður og ýmis eiturefni og svo framvegis. Lifandi tré hafa hins vegar vinninginn, sérstaklega lífrænt ræktuð tré. Nánast má segja að íslensk jólatré séu lífrænt ræktuð.  

Matt Hickman heitir bandarískur rithöfundur og blaðamaður sem meðal annars skrifar á umhverfisfréttavefinn Mother Nature Network. Þar gerði hann jólatré að umtalsefni 7. desember. Hann segir frá því hvernig þau hjónin komust að sameiginlegri niðurstöðu um að best væri lifandi jólatré, lífrænt ræktað. Jólatrjám fylgi umhverfisáhrif, hvort sem þau eru lifandi eða gervi, en best sé að fara eins náttúrlega leið og mögulegt er. En hvað felst í því?

Fyrsta hugsun okkar þegar þessi umræða fer af stað segir Matt vera að best sé að fara sjálfur út í skóg og fá að fella sitt eigið tré þar sem slíkt er í boði. Þetta geri um 23 prósent Bandaríkjamanna. Næstbest sé svo að kaupa lifandi tré í næstu jólatréssölu . Enn séum við þó á óþarflega einföldum nótum. Gallinn við lifandi jólatré er sá, segir Matt, að þau eru flest ræktuð á ökrum og við ræktunina eru notuð ýmis efni til að fá megi sem fallegust jólatré. Þetta eru áburðarefni, skordýraeitur, sveppalyf og svo auðvitað olían sem notuð er á öll tækin, dráttarvélar, flutningatæki og fleira. Ræktun jólatrjáa er umfangsmikill landbúnaður víða um heim. Neytendur gera miklar kröfur. Trén eiga að líta vel út, vera græn og gljáandi, beinvaxin og regluleg í vextinum og lýtalaus. Til að fá slík tré með ræktun þarf að leggja mikla vinnu í umhirðu og snyrtingu. Og af því að þetta eru ekki matvæli er ekki gott að vita hvort aðgát er höfð við efnanotkunina. Meðal annars er hætt við að efnin berist í grunnvatn og mengunin dreifist. Sömuleiðis er hætta á að jarðvegurinn sé píndur um of og það leiði til jarðvegseyðingar og rýrnandi landgæða.

Lífrænt ræktuð tré
Á hinum endanum er lífræn ræktun jólatrjáa. Þá eru engin varnarefni notuð og einungis lífrænn áburður. Fáanleg eru vestan hafs tré með lífrænni vottun sem bandarísk landbúnaðaryfirvöld skrifa upp á. Forvitnir lesendur vefs Skógræktarinnar geta skoðað þetta betur á vefsíðunum
LocalHarvest eða Green Promise . Í Vermont-ríki má líka benda á fyrirtæki sem selur lífrænt ræktuð jólatré og heitir Green in Vermont.

Íslensk jólatré eru mjög nálægt því að vera lífrænt ræktuð þótt þau hafi ekki slíka vottun. Þegar ársgamlar bakkaplöntur eru gróðursettar er dreift svolitlum tilbúnum áburði kringum þær og oftast nær er það eina áburðargjöfin. Engin eiturefni eru notuð og vélvæðing engin enda hefur þetta ekki verið markviss jólatrjáarækt hingað til. Jólatrén eru oftast nær tré sem tekin eru innan úr uppvaxandi skógum en eitthvað er líka um að gróðursett sé aftur inn í skóga með það í huga að upp vaxi jólatré. Hérlendis hefur að vísu lítillega verið reynt að rækta jólatré á ökrum, hingað til mest í tilraunaskyni, en til þess að fara út í slíkt í stórum stíl þyrfti mikið áhættufé og mikla fjárfestingu í sérhæfðum tækjum. Líklegt er að íslensk jólatré verði áfram um sinn aukabúgrein skógarbænda og annarra skógræktenda í landinu sem þýðir að íslensk jólatré verða áfram mjög náttúrleg og góð fyrir umhverfið – en líka fyrir ræktunarstarfið. Tekjur af sölu jólatrjáa úr íslenskum skógum nýtast nefnilega til áframhaldandi ræktunar.

Umhverfisáhrif
Lifandi jólatré binda kolefni sem plastjólatré gera ekki. Gervitrén eru einmitt búin til úr eldgömlu kolefni sem kemur upp úr jörðinni sem olía eins og vikið verður að síðar. Í Bandaríkjunum er áætlað að hvert jólatré bindi milli 15 og 200 kíló af koltvísýringi á hverju ári. Árið 2008 voru gróðursettar 40-45 milljónir jólatrjáa þar í landi. Gervitrjáaiðnaðurinn hefur hins vegar látið gera vistferilsgreiningu  þar sem niðurstaðan er gervitrjánum mjög hagstæð. Bandaríska jólatrjáasambandið, American Christmas Tree Association, talar um það á vefsíðu sinni að báðir kostirnir séu grænir, að kaupa gervitré og lifandi tré. 

En þar með er ekki öll sagan sögð, skrifar Matt Hickman. Hann vill taka betur með í reikninginn hvað gerist þegar gervitrénu er hent. Mikill munur getur verið á því að nota gervijólatré í tuttugu ár eða kaupa nýtt á hverju ári. Hér má skjóta inn í að í bæklingi um grænt jólahald sem kom út á vegum Umhverfisstofnunar 2011 er sagt að gervijólatré þurfi að nota í tuttugu ár til að þau verði betri kostur fyrir umhverfið en lifandi tré. Og það skiptir auðvitað miklu máli hvernig lifandi jólatrjám er komið í lóg. Ef þau eru urðuð með öðru sorpi fylgir því mikið álag á umhverfið en ef þau eru kurluð og nýtt sem lífrænn úrgangur, eins og gert er að mestu hérlendis, er myndin allt önnur. Langbest væri ef fólk kurlaði trén sjálft og setti þau í safnhaug eða safnkassa heima. En svo má líka þurrka þau og nota í eldinn.

Varasöm efni
En meginröksemdin fyrir því að nota lifandi jólatré er líklega fólgin í gervijólatrjánum sjálfum. Nú er algengara en hitt að Bandaríkjamenn noti gervijólatré. Þau eru búin til úr PVC-plastefnum sem eru einhver óæskilegustu plastefni sem til eru. Gervitrén er erfitt að endurvinna og flest eru þau framleidd í Kína. Árið 2006 er talið að um 13 milljónir gervijólatrjáa hafi verið fluttar inn frá Kína til Bandaríkjanna. Framleiðslan er orkufrek og orkan kemur að stórum hluta frá kolaorkuverum. Óvissa er  um framleiðsluaðferðir og aðbúnað starfsfólks en líka um heilsu neytendanna því trén geta verið meðhöndluð með alls kyns varasömum efnum, jafnvel blýi sem er stórvarasamt fyrir menn og dýr.

Á þessu sjáum við að það eru vissulega rök bæði með og á móti þessum tveimur gerðum jólatrjáa, gervi og lifandi. En er líklegt að margt fólk noti sama gervijólatréð í 20 ár? Í grein sinni mælir Matt Hickman með lífrænt ræktuðum jólatrjám. Eins og tíundað hefur verið hér að framan eru íslensk jólatré mjög nálægt því að vera lífrænt ræktuð og umhverfisáhrifin af þeim felast aðallega í flutningi þeirra úr skóginum og inn í stofu og svo aftur til förgunar. Hver fjölskylda sem kaupir íslenskt jólatré styrkir íslenska skógrækt, stuðlar að bindingu kolefnis og lyftir undir nýja og vaxandi atvinnugrein í stað þess að styrkja vafasama iðnvæðingu í Kína. Og heilabúinu í smákrakkanum á heimilinu er óhætt þótt krakkinn japli svolítið á trénu. 

Gleðileg jól

frett_22122011_2