Í byrjun 18. aldar voru smíðaðar fiðlur á Ítalíu sem enn í dag eiga ekki sinn líkan í heiminum.  Það er blautur draumur hvers fiðluleikara að draga bogann yfir strengi Stradivariusar fiðlu.  Sérfræðingar hafa í 300 ár reynt að leysa gátuna hvers vegna þessar fiðlur hljóma betur en aðrar, án árangurs.

Núna hafa tveir amerískir vísindamenn leyst gátuna.  Henry Grissino-Mayer, sérfræðingur í árhringjum trjáa og Lloyd Burckle, veðurfræðingur segja að leyndarmálið sé einkar heppileg samblanda af veðurfari og efnisnotkun ítalska meistarans.

Á árunum frá 1450 til 1850 gekk yfir Evrópu kuldaskeið sem sumir hafa kallað ?litlu ísöld?.  Það tímabil einkenndist af löngum vetrum og köldum sumrum.  Tré uxu því hægar og viðurinn varð þéttari.  Sérstaklega á þetta við um grenitrén sem stóðu uppi við skógarmörk í Ölpunum en þess konar tré notaði Stradivarius einmitt í fiðlurnar sínar.  Samkvæmt vísindamönnunum tveimur er það þessi ofurþéttleiki viðarins sem gefur hljóðfærinu sinn sérstaka og elskaða hljóm.  Sjá meira á vefslóðinni: http://www.dagbladet.no/magasinet/2003/12/09/385721.html

Þar sem veðurfar á Íslandi er talsvert kaldara en á meginlandi Evrópu má reikna með að viðarvexti hér svipi meira til þess sem hann var á tímum Stradivaríusar í Evrópu.  Þéttleikinn í grenivið er mun meiri á Íslandi heldur en á hlýrri svæðum.  Þetta gefur okkur einstakt tækifæri á að framleiða smíðavið sem stenst mjög háar gæðakröfur.  Hugsanlega verða fiðlur framtíðarinnar úr íslenskum greniskógi.