Lesið í skóginn - tálgað í tré er nýtt og vandað rit sem Garðyrkjuskólinn og Skógræktin hafa gefið út í sameiningu. Höfundur efnisins er Ólafur Oddsson, starfsmaður Skógræktarinnar en hann naut góðrar aðstoðar Guðmundar Magnússonar,handverksmanns á Flúðum og Brynjars Skúlasonar skógfræðings.

Heftið er byggt á reynslu sem fengist hefur á námskeiðunum Lesið í skóginn, tálgað í tré, sem haldin hafa verið víða um land frá 1999 og er nú hugsað sem grunn kennsluefni á námskeiðum fyrir almenning og kennara. Um 1000 manns hafa sótt námskeiðin til þessa. Í heftinu fá lesendur innsýn í skógarvistfræði, nýtingu skóganna, helstu trjátegundir sem eru notaðir í íslensku handverki, um umhirðu og grisjun í görðum og skógarreitum, geymslu og þurrkun á ferskum við, meðferð á verkfærum og ekki síst tálgutæknina, þ.e. góðar leiðbeiningar um það hvernig á að tálga með hnífi og exi af öryggi og auka þar með afköst og fá þannig meiri ánægju út úr verkefninu. Auk þessa er tekið á fjölmörgum öðrum atriðum, sem þarf að hafa í huga til að ná góðum tökum á tálgutækninni.Heftið er 40 síður með fjölda litmynda og góðum og skýrum texta. Um hönnun og umbrot sá Aðalsteinn Svanur Sigfússon hjá Stíl á Akureyri en Alprent sá um prentunina. Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkt útgáfuna myndarlega. Heftið er til sölu á skrifstofu Garðyrkjuskólans og er selt á kr. 1900.