Á austanverðu landinu hefur verið fremur hlýtt að undanförnu.  Lárus Heiðarsson skógræktarráðunautur Austurlands gerði athugun s.l. sunnudag á því hvaða áhrif þessi hlýindi hafa á lerki á Fljótsdalshéraði.  Lárus segir að það sé komin slikja á sum kvæmi lerkis og farið að sjást vel í nálar á öðrum kvæmum.  Svo virðist sem að lerkið ætli að láta plata sig líkt og í fyrravor.  Nú er þessi þróun 10 til 14 dögum fyrr á ferðinni en var í fyrra.  Segist Lárus vona að ekki frysti mikið fram á sumar, þar sem það gæti valdið miklum skemmdum.  Þessi hætta á við um innanvert Fljótsdalshérað , en á utanverðu Héraði er lerkið styttra á veg komið og því síður hætta búin.