Mynd: Þröstur Eysteinsson
Mynd: Þröstur Eysteinsson
Óvæntur glaðningur mætti starfsfólki Skógræktar ríkisins við skógarskoðun í Ásbyrgi þann 11. ágúst s.l. – stór beðja af sjaldgæfri grastegund sem skrautpuntur heitir og er stórvaxnasta grastegundin á Íslandi.

Skrautpuntur er sjaldgæf grastegund sem finnst helst í skóglendi á snjóþyngri svæðum landsins. Hann er auðþekktur á breiðum blöðum sínum en finnst óvíða í neinu teljandi magni og sökum beitar nær hann sjaldnast þeirri hæð sem hann gæti náð.

frett_13082010_2Í september 2008 ollu leifarnar af fellibilnum Ike umtalsverðu stormfalli í lerkilundi einum í Ásbyrgi og opnaðist lundurinn mikið eftir að fallin og brotin tré voru fjarlægð. Það hleypti meiri birtu niður á skógarbotninn og efldist botngróðurinn við það. Ekki kom á óvart að reyniviður, blágresi og hrútaber tóku vel við sér en ekki datt mönnum í hug að svo mikill skrautpuntur leyndist þarna, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Á efri myndinni stendur Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur, innan um skrautpuntinn en Lárus er 1,94 á hæð.

Eftir þessa uppgötvun fór starfsfólkið að horfa í kringum sig og leita að skrautpunti víðar. Hann fannst hvergi nema í öðrum lerkilundi. Sá lundur er fremur þéttur og skrautpunturinn því ekki eins áberandi en þó til staðar. Ljóst er að lerki skapar á einhvern hátt skilyrði fyrir skrautpuntinn sem birkiskógurinn gerir mun síður.


Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson