Forstöðumaður Mógilsár ræðir um skóga og eld í Samfélaginu á Rás 1

Börkur lerkitrjáa brennur illa og lerkitré hafa verið notuð með fram lestarteinum í Sví­þjóð til að minnka hættuna á gróður­eldum vegna neistaflugs frá teinunum. Sömuleiðis brenna mörg lauftré illa og í Umeå í Svíþjóð var mikið gróðursett af hengibjörk til eld­varna eftir að borgin brann síðla á 19. öld. Skógar eru ekki eldfimari en annað gróður­lendi en brennanlegur lífmassi er þó meiri í skógum en utan þeirra og nauðsynlegt að huga að eldvörnum. Þetta er meðal þess sem kom fram í fróðlegu viðtali við Aðal­stein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknarstöðvar skógrækar, Mógilsá, í þættinum Samfélaginu á Rás 1.

Tilefni viðtalsins eru skógareldarnir miklu sem nú geisa í Alberta-fylki í Kanada. Þegar slíkir atburðir verða í útlöndum kemur gjarnan upp umræða um vaxandi eldhættu vegna aukinnar skógræktar og útbreiðslu náttúrlegs skóglendis hér á landi. Aðalsteinn bendir á að skógar séu mjög miseldfimir eftir því hvaða tegundir vaxa í þeim. Engar trjátegundir séu hérlendis sem eru fullar af olíu og springa í eldi eins og tröllatré (Eucalyptus) en allar trjátegundir geti auðvitað brunnið ef hitinn er nógu mikill.

Aðalsteinn nefnir dæmi um trjátegundir sem geti beinlínis minnkað hættuna á skógareldum, lerkiskógar hafi verið ræktaðir með fram lestarteinum í Svíþjóð því lerkibörkur brenni mjög illa, í Ameríku vaxi risarauðviðir með innbyggða eldvörn og ekki óskyldar tegundir í Miðjarðarhafslöndum (Cupressus sempervirens). Með slíkum tegundum megi mynda nokkurs konar eldvegg til varnar útbreiðslu gróðurelds vegna eldibranda eða neista.


Hann bendir á þætti eins og úrkomu og annað staðbundið í umhverfi trjánna sem hafi áhrif á hversu mikil eldhættan sé. Í stórbrunanum sem varð 1888 í bænum Umeå í Norður-Svíþjóð hafi menn tekið eftir því að eldibrandar skutust milli timbur­hús­anna og kveiktu í. Ráðið við þessu hafi verið að gróðursetja hengibjarkir milli húsa og með fram götum til að hindra slíkt neistaflug. Hugmyndin var að laufmassi trjánna myndi stöðva eldibrandana á flugi. Meðan trén eru græn og blöðin blaut kviknar ekki svo glatt í þeim.

Rætt var um þurrkatíð sem komið getur á Íslandi, jafnvel á Suður- og Vesturlandi þar sem annars er yfirleitt úrkomusamt. Til að draga úr hættunni á skógar­eld­um í skógi sé mikilvægt að skógar séu grisjaðir og útbúnar séu eldlínur í skógum. Skógarvegir, stígar og reiðleiðir geta gegnt hlutverki slíkra eldlína. Aðalsteinn segir að ekki sé endilega meiri hætta á eldum í skógum en öðru gróðurlendi en vissulega sé meiri lífmassi í skógum en utan þeirra og af þeim sökum geti orðið heitir eldar ef þeir kvikna og þess vegna sé vert að hafa vara á.

Loks bendir Aðalsteinn á að skógareldar séu náttúrlegt ferli í skógum og margar trjátegundir reiði sig beinlínis á elda til endurnýjunar skógarins.

Þetta ber ekki að skilja sem svo að skógareldar séu æskilegir. Hins vegar má ekki líta á þá sem ónáttúrlegt fyrirbæri sem eingöngu sé manninum að kenna.

Texti: Pétur Halldórsson