Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að kanna hvort tilefni geti verið til að eitt tiltekið íslenskt blóm beri sæmdarheitið þjóðarblóm Íslands. Mun verkefnisstjórn með fulltrúum fjögurra ráðuneyta hafa umsjón með verkefninu og samtökin Landvernd annast framkvæmd.
Tilgangur verkefnisins, sem hefur yfirskriftina ?leitin að þjóðarblóminu", er að komast að því hvort tilgreina megi blóm sem gæti haft táknrænt gildi og sem þjónaði hlutverki sem sameiningartákn og mætti nýta í kynningar- og fræðslustarfi bæði hér á landi og á erlendum vettvangi. Jafnframt er markmið verkefnisins að skapa umræður um blóm og gróður til að auka samstöðu um gróðurvernd.

Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, kynnir blómgróður fyrir áhugasömum blómaskoðendum í Elliðaárdal, sumarið 2003. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Í tilkynningu frá Landvernd segir, að verkefnisstjórnin telji að gera verði tilteknar kröfur til þjóðarblómsins. Það þurfi að vera vel sýnilegt víða um land og einkennandi fyrir gróðurfar þess. Það þurfi að hafa tiltölulega langan blómgunartíma, vera auðvelt að teikna og vel fallið til kynningarstarfs.

Verkefnisstjórnin hefur ákveðið að leita bæði til grunnskólanna í landinu og til almennings í leit að tillögum. Nýlega var öllum grunnskólum landsins sent bréf þar sem þeir voru hvattir til að taka þátt í leit að þjóðarblóminu. Skólar sem vilja leggja eitthvað til málanna eiga að skila tillögum sínum eigi síðar en 15. september n.k

Verkefnið er að frumkvæði landbúnaðarráðuneytis og er unnið í samstarfi við menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Landvernd hefur verið falin umsjón með framkvæmd, en Landvernd stóð fyrir tveimur árum að leitinni að þjóðarfjallinu í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú leit leiddi í ljós víðtæka samstöðu um að lýsa Herðubreið þjóðarfjall Íslands.

Verkefnisstjórn fyrir leitina að þjóðarblóminu skipa Níels Árni Lund, landbúnaðarráðuneyti, formaður, Vilhjálmur Lúðvíksson menntamálaráðuneyti, Helga Haraldsdóttir samgönguráðuneyti og Ingibjörg Ólafsdóttir umhverfisráðuneyti.


Heimild: Morgunblaðið, 20/4 2004