Efnilegir sitkagrenikönglar frá liðnu sumri. Ljósmynd: heidmork.is
Efnilegir sitkagrenikönglar frá liðnu sumri. Ljósmynd: heidmork.is

Frjósemi er mikil hjá trjánum í Heiðmörk þetta árið og mikið fræ að þroskast. Á laugardag verður Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, í Heiðmörk og leiðbeinir fólki um frætínslu og meðhöndlun trjáfræja.

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir þessum viðburði og hvetur fólk til að koma og taka þátt í að safna fræjum fyrir skóga framtíðarinnar. Aðalsteinn leiðbeinir fólki um söfnun köngla af greni og furu en einnig um söfnun birkifræja.Lagt verður upp í fræsöfnunina frá Borgarstjóraplaninu í Heiðmörk. Kort: heidmork.is

Í ljósi aðstæðna biður félagið þátttakendur að huga vel að sóttvörnum. Fólk er hvatt til að hafa grímur í upphafi meðan Aðalsteinn útskýrir aðferðirnar fyrir hópnum. Síðan megi fólk taka niður grímurnar þegar það hefst handa við söfnunina, allt eftir því hvað hverjum og einum hugnast best.

Tekið verður á móti gestum við Borgarstjóraplanið í Heiðmörk og þaðan verður gengið inn í skóginn til að safna fræjunum. Glöggva má sig á staðháttum með því að skoða kortið hér til hliðar.

Í myndbandinu að neðan má sjá hvernig Aðalsteinn leiðbeinir um söfnun stafafurufræs og sáningu þess beint í jörð á rýru landi. Aðalsteinn er skógerfðafræðingur að mennt og hefur ekki aðeins mikla reynslu af rannsóknum í skógvísindum heldur einnig víðtæka reynslu af skógrækt, ekki síst á rýru og rofnu landi. Hann hefur mikla frásagnargáfu og fólk verður ekki svikið af þátttöku í frætínslunni í Heiðmörk á laugardag sem er gott framtak og til fyrirmyndar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson