Viðarkolagerð á Amason-svæðinu í Perú.
Viðarkolagerð á Amason-svæðinu í Perú.

Lífkol notuð til að stuðla að kolefnisjákvæðum búskaparháttum

Ný tækni sem vísindamenn eru að þróa við Wake Forest háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum gæti gagnast til að hamla gegn geigvænlegum afleiðingum skógareyðingar og námuvinnslu í stærsta regnskógi heims, Amason-frumskóginum. Með því að þróa aðferðir við vinnslu lífkola úr bambus og koma á nýjum búskaparháttum er talið að vinna megi gegn skógareyðingu, auka tekjur bænda og binda kolefni.

Fæst okkar átta sig fyllilega á því hversu mikilvægur Amason-frumskógurinn er fyrir jarðarbúa. Skógurinn hefur mikil áhrif á veðrakerfi jarðarinnar og árlega er áætlað að skógurinn bindi 1,5 milljarða tonna af koltvísýringi. Frá þessu var sagt á vef Wake Forest háskólans í Norður-Karólínu 2. september.

Amason-frumskógurinn er mikilvæg, sameiginleg auðlind jarðarbúa en þrátt fyrir mikilvægi hans er stöðugt gengið á skóginn og það með ógnvænlegum hraða. Frá árinu 1978 hefur skógur eyðst á um 750.000 ferkílómetrum lands á Amason-svæðinu. Þetta er meira en sjöfalt flatarmál Íslands. Og þegar skógurinn hefur verið ruddur stendur eftir viðkvæmur jarðvegur sem heldur illa í sér nauðsynlegum næringarefnum þannig að landið þar sem skógurinn stóð áður verður erfitt til ræktunar, hvort sem það er til akuryrkju, sem beitiland eða til að endurrækta skóginn.

Andrew Wilcox heitir meistaranemi í sjálfbærnifræðum við Wake Forest háskólann. Hann vinnur ásamt hópi vísindafólks frá Wake Forest og perúsku vísindafólki að lausn sem dugað gæti til að snúa þessari þróun við. Hér koma svokölluð lífkol til skjalanna sem í raun eru ekkert annað en viðarkol. Wilcox og samstarfsfólk hans er að þróa nýja og öflugri gerð af viðarkolum. Hráefnið í viðarkolin er bambustegund sem vex í Amason-frumskóginum. Þarna er nýtt eldgömul þekking og aðferð sem frumbyggjarnir eru taldir hafa þróað með sér fyrir um 2.000 árum. Indíánarnir höfðu fundið út að lífkol hefðu góð áhrif á jarðveginn. Lífkol, sem kölluð eru biochar á erlendum málum, eru með öðrum orðum góður jarðvegsbætir eða áburður. Þau eru búin til með því að brenna lífrænt efni í súrefnissnauðu umhverfi. Þá kolast efnið og svona meðhöndluðu Íslendingar birki allt frá landnámi og notuðu m.a. við járnvinnslu og -smíðar. Meiningin er hjá Wilcox og félögum að kola bambus og búa þannig til fínkornuð en mjög gegndræp viðarkol sem nýtast við ræktun, bæði á svæðum þar sem skógurinn hefur verið ruddur og þar sem land hefur mengast þungmálmum vegna námavinnslu.

Að sögn Andrews Wilcox eykur það vöxt plantna að blanda lífkolum sem þessum við jarðveginn. Til viðbótar við meiri vöxt kemur að sjálfsögðu líka meiri binding kolefnis. Þess vegna sé tvöfalt gagn að því að nota lífkolin með þessum hætti, betri ræktunarskilyrði fyrir bændur og meiri kolefnisbinding sem hamlar gegn loftslagsbreytingum.

Haldið til Amason

Suður-Ameríka er stór og Perú er geysilega stórt land. Það tók Andrew Wilcox, Miles Silman líffræðiprófessor og Abdou Lachgar efnafræðiprófessor tuttugu klukkustundir nú í sumar að aka frá höfuðborginni Lima til Villa Carmen, lítils sveitaþorps í suðausturhluta landsins, þegar þeir fóru þangað með viðarkolaofn og tilheyrandi búnað. Lachgar segir að ferðalagið hafi verið afrek út af fyrir sig. Þegar til þorpsins var komið var ofninn settur á sinn stað og tilraunir hófust með mismunandi aðferðir við viðarkolagerð úr bambus. Lachgar segir að nú sé einkum verið að kanna hvernig best sé að vinna viðarkolin svo að þau varðveiti sem best nitur, kolefni og önnur næringar- og snefilefni í jarðveginum en taki um leið sem mest í sig af þungmálmum á borð við kvikasilfur. Hægt sé að elda viðarkolin á mismunandi vegu þannig að uppbygging efnisins verði ólík og þannig megi finna hentugustu afurðina til þeirra nota sem við á. Markmiðið sé að finna þá aðferð sem gefi bændunum heppilegustu og gagnlegustu afurðina.

Rannsóknarhópurinn er nú að byrja að prófa mismunandi unnin viðarkol á tveimur stöðum, annars vegar á ræktarlandi nærri Manu-þjóðgarðinum og hins vegar á námusvæði sem mengast hefur af kvikasilfri. Líffræðiprófessorinn Miles Silman segir að sá bambus sem hópurinn notar sem hráefni vaxi hratt á landi þar sem skógi hefur verið eytt en líka á námusvæðum. Þess vegna felist í honum miklir möguleikar fyrir bændurna. Ræktunin gefi af sér skógarafurðir en í ofanálag kemur viðarkola- og orkuframleiðsla. Þessi samþætta starfsemi eigi að geta aukið tekjur bændafólksins og lífsgæði þess en um leið létt nokkuð af þeim þrýstingi að sífellt sé ruddur skógur á láglendi og landið brotið til landbúnaðar. Þar fyrir utan geti þessir búskaparhættir verið kolefnisjákvæðir, að meira kolefni sé bundið en það sem losnar við starfsemina.

Texti/þýðing: Pétur Halldórsson