Aðgengi fyrir alla er markmið Skógræktarinnar. Nú er skogur.is enn aðgengilegri en fyrr því fólk sem…
Aðgengi fyrir alla er markmið Skógræktarinnar. Nú er skogur.is enn aðgengilegri en fyrr því fólk sem á erfitt með að lesa texta á venjulegum vefsíðum getur nú nýtt sér vefþulu sem les upp textann á vefnum eða breytt litaskilum og fleiri stillingum í útliti vefsins. Mynd af pixhere.com

Sett hefur verið upp vefþula á vef Skógræktarinnar sem gerir fólki kleift að láta lesa fyrir sig það efni sem þar er að finna. Jafnframt geta notendur sem erfitt eiga með að skoða vefi í hefðbundnu útliti notað eigin stillingar á litamun og fleiri atriðum.

Til að ræsa vefþuluna er ýtt á hnappinn sem er til vinstri neðan við fyrirsögn textansHvort tveggja er viðleitni Skógræktarinnar til að gera vefinn sem aðgengilegastan öllu fólki. Þessi aukna þjónusta nýtist blindum, sjónskertum og fólki sem af ýmsum ástæðum á erfitt með að lesa texta.

Vefþulan er frá alþjóðlega fyrirtækinu Readspeaker sem starfar í fimmtán löndum og veitir þjónustu í um 65 löndum vítt og breitt um heiminn. Fyrirtækið hefur unnið að þróunu talgervla og vefþulna í tuttugu ár og nú er þessi þjónusta orðin þróuð og notendavæn á íslensku einnig. Blindrafélagið er tengiliður hérlendis við Readspeaker.

Notandinn getur breytt stillingum vefþulunnar eftir eigin þörfum, hvort skrunað er sjálfkrafa niður skjáinn eftir því sem textanum vindur fram, hvort textinn er ljómaður sem lesinn er hverju sinni og með hvaða lit, leshraða, hljóðstyrk og fleira. Nánar má glöggva sig á virkni og möguleikum vefþulunnar á vef Blindrafélagsins.

Fyrir sjónskerta er líka mikilvægt að geta stillt andstæður lita og fleiri atriði svo að auðveldara sé að greina það sem á skjánum sést, lesa texta, rata um vefinn og svo framvegis. Til að virkja þennan eiginleika er ýtt á þennan ljósbláa hnapp   efst til vinstri á vefnum. Þá breytist textalitur og bakgrunnslitur vefsins en notandinn lagar þetta að eigin þörfum með því að breyta stillingum sem auðvelt er að gera.

Skógræktin vonar að þessi þjónusta mælist vel fyrir. Allar ábendingar um það sem betur mætti fara eru þegnar með þökkum á netfangið petur@skogur.is

Texti: Pétur Halldórsson