Ritið Icelandic Agricultural Sciences er alþjóðlegt tímarit sem birtir m.a. rannsóknaniðurstöður á sviði skógfræði, vistfræði og landbúnaðar á norðlægum slóðum. Tímaritið er gefið út í samstarfi háskóla og rannsóknastofnanna á Íslandi, m.a. Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá. Frá árinu 2009 hefur ritið verið skráð sem ISI rit í Thomson gagnagrunninum, auk fleirri gagnagrunna. Á hverju ári er birtir Thomson áhrifastuðul fyrir öll tímarit sem þar eru skráð. Nýr áhrifastuðull IAS er 1,75 og er það hæsti stuðull sem vísindarit gefið út á Íslandi og skráð í gagnagrunninum, hefur.

Í nýjasta hefti ritsins er grein um ný skordýr á trjám og runnum á Íslandi en þrír sérfræðingar á Rannsóknastöð skógræktar eru meðhöfundar að greininni. Í henni er rakin landnámssaga nýrra liðdýrategunda sem lifa á trjám og runnum á Íslandi. Frá byrjun tuttugustu aldar til ársins 2012 hafa alls 27 slíkar tegundir numið hér land. Ein þessara tegunda, furulús, er talin hafa verið meginorsakavaldur að dauða nær allrar skógarfuru hér á landi. Hraði landnáms reyndist vera mestur á hlýskeiðum og skordýrafaraldrar í birkiskógum reyndust einnig vera mestir á hlýskeiðum. Eftir 1990 hafa orðið verulegar breytingar á faraldsfræði annarra meindýra í skógum hér á landi. Í greininni er fjallað um hugsanleg áhrif nýrra meindýra og breytinga á faraldsfræði meindýra á innlend skógarvistkerfi og vaxandi skógarauðlindir landsins.

Sækja greinina


Mynd og texti: Edda S. Oddsdóttir