frett_28122006_1

Flóð, aurskriður, vatnsrof á jarðvegi og margháttaðar skemmdir á mannvirkjum þeim samfara voru mikið í fréttum dagana fyrir jól. Með góðum rökum má þó halda því fram að ekki sé einungis hægt að kenna um leysingum, stórrigningum og vonskuveðri, heldur einnig því að gróðurhula Íslands sé of vanmáttug til þess að taka á móti miklu magni úrkomu á skömmum tíma án þess að jarðvegur rofni.

 

Í viðtali Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar við Svein Runólfsson landgræðslustjóra, sem flutt var í fréttum ríkissjónvarpsins á aðfangadag jóla, taldi hinn síðarnefndi að milljónir tonna af jarðvegi hefðu skolast á haf út með flóðum, í kjölfar stórrigninga í vikunni fyrir jólin. Taldi hann flóðin til marks um auknar öfgar í veðurfari og að þær öfgar mætti rekja til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Taldi hann að eina úrræðið til þess að sporna gegn vatnsrofi í stórrigningum væri að binda jarðveginn með aukinni þekju skóg- og kjarrlendis. Um leið mætti sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum með því að auka bindingu koldíoxíðs í skógi  („öflugum gróðri“).

 

„Flóð síðustu daga áfall fyrir landgræðslustarf“ (Sjónvarpsfréttir RÚV, 24. desember 2006)

Bogi Ágústsson:  Flóðin síðustu daga eru áfall fyrir landgræðslustarf í landinu, segir landgræðslustjóri, enda hafi milljónir tonna af jarðvegi tapast. Hann segir aðeins eitt úrræði: að klæða landið gróðri og binda þannig jarðveginn.

Magnús Hlynur Hreiðarsson (MHH): Flóðin víða um land undanfarna daga hafa ýmsar afleiðingar í för með sér. Einn hluti þess er landgræðslustarfið en gríðarlegt magn af jarðvegi hefur skolast til sjávar.

Sveinn Runólfsson (SR): Við erum að tapa milljónum tonna af verðmætum jarðvegi til sjávar með ánum okkar.

MHH: Hvað þýðir þetta fyrir landgræðslustarfið?

SR: Þetta er enn ein hvatning til allra landsmanna um það að við verðum að ná miklu stærri áföngum í að klæða landið gróðri. Við þurfum að koma kjarri og birki og víðikjarri sem allra allra víðast sem binda jarðveginn og öðrum öflugum gróðri þar sem því verður við komið til þess að koma í veg fyrir svona áföll af völdum náttúrunnar. En við sjáum bara þegar við horfum yfir þessi vatnsföll, að þau eru full af jarðvegi.

MHH: Hvernig getur landgræðslan brugðist við í svona máli?

SR: Hún verður að hvetja landsmenn og alla þá sem unna landinu okkar – bændunum – að gera enn stærri skref í að klæða landið gróðri, að fá meira fjármagn. Við erum rík þjóð, bæði af fjármunum og við erum rík af illa förnu landi svo við höfum gríðarleg tækifæri til að gera miklu betur.

MHH: Sveinn segir að ein af ástæðunum fyrir flóðunum á þessum árstíma megi m.a. rekja til loftslagsbreytinga; það séu að verða meiri öfgar í veðurfari en áður þekktist. Þar spili maðurinn stórt hlutverk.

SR: Við eigum öll þátt í þessu. Það ætlar enginn að draga úr útblæstri en við höfum stórkostleg tækifæri til að binda kolefni með landgræðslu og gróðri í jarðvegi og gróðri.