Guðni Ágústsson svaraði fyrirspurn Helgu Þorbergsdóttur þingmanns sjálfstæðisflokks um hvort ráðherra hygðist styðja frekar við skógrækt í landinu jákvætt.Hér má lesa frétt Morgunblaðsins um svar ráðherra.

Skógrækt studd enn frekar

"SVAR MITT við fyrirspurninni er eðlilega já," sagði Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Helgu Þorbergsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um hvort ráðherra hygðist styðja frekar við skógrækt í landinu og þá með aukinni fjárveitingu. Helga vísaði til þess að það væri almennt viðurkennt að breytingar á styrk kolefnis í andrúmslofti skipti miklu máli upp á hitastig á jörðinni. "Timburskógrækt er mun afkastameiri í bindingu kolefnis en hinn gamli íslenski birkiskógur og almennur gróður. Ræktun nýskóga mun samkvæmt Kyoto-bókuninni vera jafngild leið og að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda," sagði Helga og bætti við að möguleikar til skógræktar væru góðir á Íslandi.
 

Guðni sagðist hafa barist fyrir aukinni skógrækt í landinu og auknum fjárframlögum. "Á síðustu árum hefur landið orðið hlýrra og byggilegra, einnig dýrmætara, þetta hefur gerst hér á síðustu árum og ekki síst vegna skógræktarverkefnanna," sagði Guðni og bætti við að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi tekið þá ákvörðun að hefja markvissa skógrækt á Íslandi. "Stuðningur við skógrækt á sér hljómgrunn í öllum flokkum hér á Alþingi og hefur m.a. komið fram í fjárveitingu til málaflokksins á síðustu árum."

 

Fréttina í Morgunblaðinu má lesa HÉR, en umræður á Alþingi þann 24. janúar s.l. má finna HÉR.