Laugardaginn 23. nóvember hófst kynning á íslenskum jólatrjám í Smáralind í Kópavogi. Hluti af kynningunni er jólagetraun um íslensk jólatré sem fram fer við hlið fallegrar stafafuru í stærri kantinum. Þrír þáttakendur sem svara spurningunum rétt eiga möguleika á að fá heimsenda stafafuru sem jólatré fyrir jólin. Nokkrar skreyttar stafafurur ættaðar frá Snæfoksstöðum í Grímsnesi sem Skógræktarfélag Árnesinga gaf til þessarar kynningar prýða Smáralind nú fyrir jólin. Skógrækt ríkisins ásamt Skógræktarfélagi Íslands standa fyrir kynningunni í ágætri samvinnu við Smáralind. Jólatréð sem getraunin fjallar meðal annars um og sést á myndinni er stafafura sem var gróðursett á landi Snæfoksstaða árið 1974 þá tveggja ára gömul. Nú hefur tréð náð 4,4 m hæð. Stafafura heldur barrinu einna lengst allra íslenskra jólatrjáa.

 Á Íslandi eru ræktaðar þrjár aðal tegundir jólatrjáa. Það eru stafafura, rauðgreni og blágreni. Það tekur stafafuruna um 10-15 ár að ná æskilegri hæð, en rauð- og blágrenið frá 15-25 árum.

Það skiptir máli hvernig tré fólk velur um jólin. Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré og gervitré. Við ræktun íslenskra jólatrjáa er ekkert notað af mengandi efnum. Við ræktun víða erlendis er notað mikið af illgresis- og skordýraeitri sem ekki þarf hér. Við þetta bætist að eldsneytisnotkun er meiri þegar trén eru flutt inn frá útlöndum. Lifandi tré eru umhverfisvænni en gervitré og lifandi tré má endurvinna.

Með því að velja íslenskt jólatré í ár styður þú við skógrækt á Íslandi. Þú getur keypt íslensk jólatré hjá:
- Garðheimum
- Blómavali
- Skógræktarfélögum víða um land
- auk ýmissa smærri söluaðila


Þær spurningar sem þáttakendur eiga að svara fyrir jólagetraunina eru:

Hversu hátt er furutréð sem stendur í Smáralind?
2,0 m
5,0 m
4,4 m

Hversu gamalt er tréð?
3 ára
30 ára
50 ára

Af hvaða tegund er tréð?
stafafura
sitkagreni
rauðgreni

Hvert er umhverfisvænast?
Íslensk stafafura
plastherðatré
innflutt jólatré

Hvernig styður þú við skógrækt á Íslandi?
kaupir plastherðatré
kaupir innflutt jólatré
kaupir íslenskt jólatré

Þeir lesendur síðunnar sem ekki hafa tök á að bregða sér í Smáralind fyrir 12. desember geta prentað þessa síðu út, krossað við rétt svör og sent lausnirnar ásamt nafni og heimilisfangi á Skógrækt ríkisins, Austurvegi 3-5, 800 Selfoss, merkt ,,Jólagetraun". Svarseðlar sem borist hafa fyrir 13. desember verða sett í pottin og verða með í útdrættinum.


Eins og sjá má þá var áhugi á getrauninni töluverður fyrsta daginn og komust færri að en vildu. S.r. og S.Í. þakka starfsfólki Smáralindar fyrir aðstöðuna og ágætt samstarf.