Íslenskt vísindafólk fékk grein um efnið birta í erlendu tímariti

Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsókastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, er meðal höfunda greinar sem nýlega birtist í vísindaritinu European Journal of Plant Pathology. Meðal annars er fjallað um sveppinn Melampsora larici-populina sem veldur asparryði. Sveppur þessi er einn sá skæðasti sem herjar á aspartegundir (Populus) og hér á landi fannst hann fyrst í Hveragerði og á Selfossi sumarið 1999. Síðan hefur hann tekið að dreifast um landið og fundist á öspum allt frá Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu, um Suðurland og alveg austur á Hallormsstað. Sveppurinn hægir á vexti trjánna og þar með myndun lífmassa, sem þýðir að minni verðmæti fást út úr skóginum eða a.m.k. að myndun verðmæts viðar verður hægari.

Rannsóknina gerði Halldór ásamt samstarfsfólki við Landbúnaðarháskóla Íslands, Sigríði Erlu Elefsen og Jóni Hallsteini Hallssyni, ásamt Frakkanum Pascal Frey, sem er sérfræðingur í vistfræði trjásveppa við Lorraine-háskóla í Frakklandi. Verkefnið var meistaraverkefni Sigríðar Erlu og voru þeir Halldór og Jón Hallsteinn leiðbeinendurnir. Safnað var sýnum af asparryði hérlendis til að greina erfðafjölbreytileika og útbreiðslumynstur. Einangruð voru alls 439 sýni sem safnað hafði verið á fimmtán stöðum og þau greind með 22 erfðamörkum en síðan borin saman við frönsk sýni.

Tveir meginhópar sveppsins virðast vera til hér á landi samkvæmt niðurstöðum þessara athugana. Annar þeirra er dreifður um öll þau svæði þar sem asparryð hefur fundist á Íslandi en hinn hefur aðeins fundist austur í Lóni. Samkvæmt samanburði íslensku sýnanna við þau frönsku virðist sveppurinn sem aðeins hefur fundist í Lóni líkjast meira sýnunum frá Frakklandi en öðrum sýnum héðan frá Íslandi. Af því er dregin sú ályktun að sveppurinn hafi borist hingað tvisvar í það minnsta, fyrst árið 1999 og svo aftur nokkrum árum síðar. Við megum semsé búast við því að plöntusjúkdómar berist endurtekið hingað til lands og auki hættuna á því að þær trjátegundir sem hér eru notaðar í nytjaskógrækt sýkist, að minnsta kosti þar sem aðstæður eru óværunni hagstæðar, skógur nægilega mikil og þéttur o.s.frv. Því er mjög mikilvægt að unnið sé að kynbótum í skógrækt og kynbætt fyrir yrkjum sem þola sem best ágang sveppa til dæmis.

Sjá greinina í European Journal of Plant Pathology. 

Einnig hefur birst grein um þessi efni í veftímaritinu Skrínu.


Nytjaskógur með ösp á Markarfljótsaurum.
Mynd: Halldór Sverrisson