Við undirritun Kviku og Klappa á viljayfirlýsingu um stofnun sjóðs til að flýta fyrir kolefnishlutle…
Við undirritun Kviku og Klappa á viljayfirlýsingu um stofnun sjóðs til að flýta fyrir kolefnishlutleysi Íslands. Ljósmynd: aðsend

Vilji er til þess að stofna íslenskan sjóð sem ætlað er að flýta fyrir kolefnishlutleysi Íslands. Sjóðurinn á að vera vettvangur fyrir fjárfesta til að taka þátt í fjárfestingum í landbótaverkefnum sem fela í sér mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Þetta verða vottuð skógræktarverkefni til að byrja með en í fyllingu tímans geta það einnig orðið votlendis- og landgræðsluverkefni ásamt öðrum aðgerðum sem draga úr nettólosun vegna landnotkunar. 

Kvika banki, Kvika eignastýring og Klappir hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun sjóðsins og segir í tilkynningu að stefnt sé að því að niðurstaða um framhald verkefnisins liggi fyrir snemma á nýju ári. Fyrst þurfi að greina rekstrarhagræði sjóðsins og móta helstu verkþætti sem snúa að heppilegri útfærslu. Sjóðnum er ætlað að fjárfesta í landbótum sem gefa af sér vottaðar kolefniseiningar og skráningarhæfar í loftslagsskrá. Slíkar einingar eru framteljanlegar á móti losun til ábyrgrar kolefnisjöfnunar og gildar gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum.

Jafnframt er markmiðið að þær landbætur sem sjóðnum er ætlað að fjármagna skapi bæði arð og atvinnu en styðji auk þess við umbreytingu í landbúnaði. Þannig styðji sjóðurinn við þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahag, samfélag og umhverfis- og loftslagsmál. Sérstaklega er horft til 17. heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um samvinnu og samstarf hagaðila (hins opinbera, einkaaðila og borgaranna) og stuðning þeirra við verkefni sem stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins.

Fjallað er um væntanlega stofnun sjóðsins í frétt á vef Viðskiptablaðsins og haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, að vegna þeirra ógna sem markmið Íslendinga um kolefnishlutleysi feli í sér fyrir efnahagslífið verði einkaaðilar að finna lausnir í loftslagsmálum. Í því séu fólgin ýmis tækifæri. Þau tækifæri sem felast í kolefnisbindingu geti orðið útflutningsgrein hér á landi. Framtak á borð við loftslagssjóðinn geti verið skynsamleg og arðbær leið fyrir fjárfesta til að hafa áhrif. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, segir að auk þess að stöðva losun vegna hnignunar vistkerfa, binda kolefni, miðla vatni, vernda og byggja upp jarðveg, hreinsa loft, veita skjól og styrkja búsvæði lífvera felist mikilvæg viðskiptatækifæri í landbótum. Undir þetta tekur Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, og bætir við að væntanlegur sjóður muni hafa alla burði til þess að vera mikilvægt framlag, sem jafnframt feli í sér raunveruleg og mælanleg áhrif á stöðu loftslagsmála á Íslandi.

Texti: Pétur Halldórsson