Í gær, fimmtudaginn 15. nóvember, var vígt afar sérstakt hús í Haukadalsskógi. Húsið er byggt eingöngu úr íslensku sitkagreni og er kennt við Danann Kristian Kirk sem gaf Skógrækt ríkisins jörðina Haukadal fyrir tæpum 70 árum.

Við vígsluna blessaði Sr. Guðbjörg Arnardóttir húsið og Einar Óskarsson verkstjóri Skógræktarinnar í Haukadal lýsti byggingu hússins. Húsið er hannað af Morten T. Leth og Einari Óskarssyni, sem smíðuðu húsið með aðstoð sumarstarfsfólks Skógræktarinnar í Haukadal.

Það þykir við hæfi á 100 ára afmæli Skógræktar ríkisins að sýna fram á að hægt sé að byggja hús í fullri stærð úr íslenskum viði. Húsið er byggt úr sitkagreni, bæði úr Haukadalsskógi, Skorradal og frá Þingvöllum. Var grindin gerð úr heilum trjábolum, en þak og veggir úr efni sem búið er að rista upp með bandsög. Er skýlið um 115 m2 að grunnfleti og því hægt að koma fyrir stórum hópi gesta í því. Er húsið hannað til að taka á móti fólki í hjólastólum og hefur verið gerð braut frá því sem tengist skógarstígum fyrir hreyfihamlaða sem er að finna í Haukadalsskógi.

 Mun skýlið verða nýtt af skógargestum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Er ráðgert er að leigja það stærri hópum.

Meðfylgjandi ljósmyndir tók Hrafn Óskarsson af vígslunni. Nánar má lesa um K.Kirk húsið hér.