Börn úr Ártúnsskóla við tökur á efni fyrir Krakkarúv. Hlynur Gauti Sigurðsson með myndavélina. Ljósm…
Börn úr Ártúnsskóla við tökur á efni fyrir Krakkarúv. Hlynur Gauti Sigurðsson með myndavélina. Ljósmynd: Oddur Ólafsson

Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga fimmtudaginn 21. mars koma börn úr Ártúnsskóla í Reykjavík fram í Krakkafréttum Sjónvarpsins þrjú kvöld í röð. Útikennsla í skógi hefur verið snar þáttur í skólastarfi Ártúnsskóla um árabil.

Þema alþjóðlegs dags skóga hjá Sameinuðu þjóðunum er að þessu sinni skógur og fræðsla. Í fyrsta innslaginu í Krakkafréttum er fjallað um heilsu skógarins sem börnin í Ártúnsskóla hafa fræðst um og miðla nú til sjónvarpsáhorfenda. Þau hafa tekið margvísleg efni fyrir ásamt Ólafi Oddssyni, fræðslufulltrúa Skógræktarinnar. Á vettvangi þeirrar fræðslu hefur Ólafur unnið hráefni fyrir Krakkarúv ásamt Hlyni Gauta Sigurðssyni, kvikmyndatökumanni Skógræktarinnar. Krakkarúv sá síðan um fullvinnslu á efni í Krakkafréttir úr þessu hráefni

Krakkarnir í Ártúnsskóla hafa tekið þátt í ýmsum fræðandi verkefnum sem tengjast skógrækt á Íslandi. Skólinn hefur frá árinu 2004 notað grenndarskóg sinn í skólastarfi með margvíslegum hætti. Í Krakkafréttum þessa vikuna kynnumst við því hvernig nemendurnir fræðast um heilsu trjánna, læra um skógarumhirðu, kolefnisbindingu og margt fleira. Þau hafa líka séð um að saga greinar af og fjarlægja tré sem ekki fá pláss til að vaxa þannig að fræðslan er bæði almnen fræðsla um skóga og verkleg fræðsla. Umfjöllun þessi verður sem fyrr segir þrjá daga í röð í þessari viku, þriðjudag, miðvikudag og á alþjóðlegum degi skóga, fimmtudaginn 21. mars.

Krakkarúv er á dagskrá í Sjónvarpinu klukkan 18 síðdegis og enda á Krakkafréttum klukkan 18.50. Svo má líka minna á Útvarp Krakkarúv sem er á Rás 1 klukkan 18.30 mánudaga til fimmtudaga. Þar verður í kvöld, þriðjudag, rætt við tvo nemendur úr Ártúnsskóla og skólastjórann þeirra um verkefnin í skóginum.Íslenskt merki alþjóðlegs dags skóga

Texti: Pétur Halldórsson