Frá sýningunni 2018. Ljósmynd: Ritsýn
Frá sýningunni 2018. Ljósmynd: Ritsýn

Verið velkomin í ketilkaffi bás Skógræktarinnar á sýningunni Íslenskum landbúnaði 2022 sem opnuð verður í Laugardalshöll í Reykjavík föstudaginn 14. október og stendur fram á sunnudag. Í básnum verður skógarstemmning og starfsfólk Skógræktarinnar svarar spurningum um hvaðeina sem snertir skóga og skógrækt, meðal annars skóga og skipulag, kolefnismálin, þjóðskógana, hvernig hefja má skógrækt og fleira. 

Ketilkaffi er ómissandi hluti af skógarferð og bás Skógræktarinnar á sýningunni verður eins konar skógarganga. Í slíkum göngum er ketilkaffið ómissandi og verður ketillinn hangandi á eldstæðinu. Þá verður líka hægt að smakka þrjár trjátegundir, birki, lerki og greni, í formi brjóstsykurs sem reiddur verður fram í skálum úr þessum sömu trjátegundum. Að sjálfsögðu verða líka alvöru tré í básnum og húsgögn úr heimafengnum viði.

Auk kynningar á skógrækt í bás Skógræktarinnar flytja Hrefna Jóhannesdóttir, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, og Úlfur Óskarsson, verkefnastjóri kolefnismála, erindi klukkan 14.30 á laugardag í fyrirlestrarsal sýningarinnar.

Þessi skógarstígur í Guttormslundi verður bakgrunnurinn í bás Skógræktarinnar á sýningunni. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSýningin Íslenskur landbúnaður er beint framhald af samnefndri sýningu sem haldin var haustið 2018 þar sem Skógræktin var einnig þátttakandi. Í fréttatilkynningu frá sýningarhöldurum er haft eftir sýningarstjóranum, Ólafi M. Jóhannessyni, að markmið sýningarinnar sé að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðarog hreinleika íslenskrar matvælaframleiðslu. „Sýningin verður jafnframt öflugur kynningarvettvangur þjónustufyrirtækja í landbúnaði og geta bændur og aðrir gestir kynnt sér það nýjasta í tækjum og hvers kyns rekstrarvörum fyrir landbúnaðinn,” segir Ólafur.

Að sögn Ólafs er mikil gróska í sveitum landsins. „Við finnum það á viðtölum við bændur að sveitirnar eru að blómstra. Ferðaþjónustan hefur tekið risastökk og svo er öll tækniþróun að létta mjög undir hjá bændum. Þeir eru jafnvel farnir að stýra ýmsu í gripahúsum í gegnum tölvubúnað. Þá eru líka litlir landbúnaðarframleiðendur víða að af landinu með mjög forvitnilega bása. Fjölbreytileiki landbúnaðarvara eykst stöðugt og er einstaklega gaman að geta tekið þátt í því að kynna alla þessa grósku og fjölbreytileika á svona stórri sýningu en hún fyllir 5.000 fermetra sal Laugardalshallar. Þá erum við afar ánægð með þá fyrirlestradagskrá sem hér er boðið upp á. Fyrirlestar í senn fróðlegir og áhugverðar og nýjar hugmyndir reifaðar. Eitt er víst að það hefur sjaldan verið ríkari þörf á öflugum innlendum landbúnaði og nú um stundir þegar ríkja stríð og plágur. Hollur er heimafenginn baggi!“ segir Ólafur að lokum.

Sýningin Íslenskur landbúnaður 2022 er opin á föstudag: 14. október kl. 14.-19, laugardag 15. október kl. 10-18 og sunnudag 16. október kl. 10-17.

Hér neðst eru myndir úr bás Skógræktarinnar frá 2018 en hann verður enn glæsilegri í ár. Verið velkomin!

Texti: Pétur Halldórsson