Skógræktin hvetur landsmenn til að leita huggunar gegn veirufárinu með því að knúsa tré. Reynið, og þið munuð finna!

Á þessum erfiðu tímum þegar kórónuveiran hrellir þjóðina, aðskilur fólk og bælir niður þjóðfélagið erum við beðin að forðast nánd og snertingu. Knúsin við annað fólk verða að bíða. En þá er gott tækifæri til að upplifa gott knús við tré. Trjáknús er heilandi og læknandi athöfn.

Gætið þess að knúsa ekki bara augnablik. Takið utan um tréð og bíðið þangað til þið farið að finna hvernig lífsmagnið fer að streyma í ykkur úr trénu.

Þetta virkar, sannið þið til! Hér fyrir neðan eru myndir af starfsfólki Skógræktarinnar og aðstandendum við þessa nytsömu iðju, að knúsa tré. Trjáknúsarar allra landa sameinist! Knúsum tré og útbreiðum skóga heimsins á ný. Klæðum landið!

#knusumtre

Aðgæsla vegna smits

Ákveðna aðgæslu þarf til að vinsæl knústré beri ekki smit. Nóg er nú af trjánum þannig að fólk þarf ekki að faðma sama tréð heldur eitthvert tré sem það finnur ekki endilega við göngustíginn. Þá er gott að fara inn í skóginn. Tréð þarf ekki að vera stórt og svert. Það má alveg vera í öllum stærðum en aðalatriðið er að knúsa það dálítið. Það er mjög gott líka að loka augunum á meðan maður er að faðma eða knúsa tré. „Ég halla nú kinninni að trénu og finn hlýjuna og straumana streyma frá trénu yfir í mig. Það er alveg greinilegt,“ sagði Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi þegar Sjónvarpið heimsótti Hallormsstað og gerði frétt um trjáknúsið.

Vinnulag vegna COVID-19

Skógarþjónusta Skógræktarinnar hefur líka sett fram reglur um vinnulag skógræktarráðgjafa og umsjónarfólks dreifingarstöðva sem gilda einnig í öllum samskiptum við skógarbændur, verktaka og aðra. Fram undan er annatími í vor og sumar. Gróðursetning og önnur verk verða samkvæmt áætlun þrátt fyrir faraldurinn og brýnt að farið sé að öllu með gát. Sjá nánar í eftirfarandi skjali:

Texti: Pétur Halldórsson