Þéttur viður sem ætti að endast vel óvarinn

Um helgina var sökkull á sumarhúsi í Mýrdal klæddur með óköntuðum borðum úr íslenskri bergfuru. Bergfura er þéttur viður sem ætti að endast lengi án fúavarnar.

Timbrið var sótt í gamla, þétta bergfuruteiga í Esjuhlíðum í landi Mógilsár. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá grisjaði þessa teiga í byrjun mánaðarins og þá féll til talsvert af bergfuru.

Trén voru dregin niður snarbratta hlíðina og úr þeim valdir sæmilega beinir bolir en með slæddust (til samanburðar) fáeinir bolir af rússa- og evrópulerki.  Sævar Hreiðarsson og samstarfsmenn hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sáu um að saga efnið í 1“ borðvið í sög félagsins að Elliðavatni og því næst var það flutt austur í Mýrdal, þar sem ákveðið hafði verið að reyna endingu viðarins á sumarbústað að Djúpaleiti.

Bergfuruborðin taka sig vel út á sökklinum og forvitnilegt verður að sjá hvernig þau veðrast.">

Þá var eftir að birkja (flysja börkinn af) timbrinu og var Aðalsteinn heilan dag að því verki. Að því loknu voru kvaddir til handlagnir menn sem röðuðu þessu saman og festu á grunn hússins eins og sést á meðfylgjandi myndum.


Í Mýrdal eru kjöraðstæður fyrir fúasveppi, því þar rignir flesta daga ársins, loftraki er hár og hiti fer sjaldan niður fyrir frostmark vetrarmánuðina. Því þarf að vanda þar sérlega vel til vals á timbri sem á að vera óvarið. Fyrir valinu varð þetta efni, því bergfuruviður er afar þéttur, enda tegundin afar hægvaxin. Viðurinn virðist líka endingargóður, því bolir sem felldir voru við grisjun fyrir 15 árum liggja enn ófúnir á skógarbotninum.

Sævari Hreiðarssyni og félögum eru færðar sérstakar þakkir fyrir að bregðast skjótt og vel við beiðni um aðstoð við þetta verkefni. 

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Kristinn Kjartansson