Mesta endurheimt skóglendis sem um getur

Kínverjar hrundu um aldamótin af stað mesta skógræktarverkefni sem sögur fara af í heiminum. Með því vilja þeir sporna við landeyðingu, flóðum og fleiri umhverfisógnum. Markmiðið er að ríflega 40% lands í Kína verði þakin skógi en nú þegar fullyrða kínversk stjórnvöld að skógarþekjan sé orðin um 20%.

Hamfaraflóð tíðari

Gríðarleg flóð urðu í Jangtsefljóti í Kína árið 1998. Meira en 4.000 manns drukknðu og fimmtán milljónir urðu heimilislausar. Þessi miklu flóð urðu kveikjan að þessu mikla skógræktarverkefni enda beint samhengi milli skógareyðingar og flóða. Skógar sem standa í hæðóttu og fjöllóttu landslagi hægja á rennsli vatns í vistkerfunum. Rætur trjánna binda saman jarðveginn, trén taka upp vatnið, það gufar upp og fellur aftur sem regn. Þannig er eðlileg hringrás vatnsins. Í miklum rigningum getur skógi vaxið land tekið við miklu umframmagni vatns sem rennur síðan hægt og rólega í burtu eða gufar upp. Rakinn geymist lengi í jarðvegi skógarins og nýtist trjám og öðrum gróðri. Náttúran getur þannig átt birgðir vatns upp á að hlaupa í þurrkatíð.

Þegar skógurinn hverfur hefur náttúran ekki lengur þennan stuðpúða sem skógurinn er. Hún getur hvorki hægt á rennsli vatnsins þegar það er of mikið né geymt það þegar þurrt er. Í staðinn rennur vatnið viðstöðulaust niður hlíðar og dali, safnast saman í stærri og stærri ám og fljótum og veldur hamfaraflóðum þegar verst lætur, til dæmis í stórfljótum eins og Jangtse-fljóti og Gulafljóti í Kína. Eyðing skóga og annars gróðurs er ein af meginástæðunum fyrir því að nú eru flóð tíðari og valda oftar tjóni en áður. Byggð er gjarnan þétt við stórfljót og því færa hamfaraflóðin oft í kaf þéttbýlar borgir og sveitir. Öllu þessu fylgir líka að skortur á neysluvatni er sívaxandi vandamál í Kína og víðar.

Flóð í Shenzhen-fljóti í Suður-Kína 2008
Mynd:  Wikimedia Commons/Chase Chesser

Endurheimt skóglendis

Hið mikla skógræktarátak sem Kínverjar hafa sett í gang skiptist í tvo meginhluta eftir því sem sagt var frá nýlega á asíska fréttavefnum Asia Sentinel. Aðallega má tala um tvö verkefni sem ná yfir allt þetta stóra land, annars vegar það sem á ensku er kallað Natural Forest Protection Program og hins vegar Returning Farmland to Forest Program þar sem líka eru notuð slagorðin „Grain-for-Green“ og „Sloping Land Conversion“. Þessi heiti fela það í sér að annars vegar sé meiningin að vernda náttúrlega skóga og hins vegar að breyta ræktarlandi aftur í skóglendi, sérstaklega ræktarlandi í fjallahlíðum sem gefur litla uppskeru í akuryrkju. Fátæku fólki í fjallabyggðum hefur nú boðist í rúman áratug að fá greitt í bæði kornmeti og peningum fyrir að breyta snauðu og bröttu akurlendi í skóg.

Gríðarleg skógareyðing

En Kínverjar voru langt komnir með að eyða öllum skógum sínum. Samkvæmt upplýsingum frá Greenpeace-samtökunum eru aðeins um 2 prósent eftir af náttúrlegum skógum í Kína og einungis 0,1 prósent skóglendis í landinu er verndað. Skógareyðingunni hefur fylgt gríðarleg hnignun líffjölbreytni og til hennar rekja menn ýmsa óáran, bæði ógnir eins og aurflóð og gríðarlega loftmengun, til dæmis í höfuðborginni Beijing.

Þekktur er Kínamúrinn og til hans vísar trúlega nokkuð sem kallast á ensku „Great Green Wall“ eða græni veggurinn mikli. Þeim vegg er ætlað að hefta útbreiðslu eyðimarka og til að setja hann upp á að gróðursetja fáheyrðan fjölda af skógarplöntum.

Mesta skógræktarland heims

Kína er alræðisríki sem ekki býr við lýðræði eða eðlilegt aðhald almennings að stjórnvöldum. Fullyrðingar talsmanna kommúnistaflokksins þarf því ávallt að taka með fyrirvara en þeir halda því fram að með skógræktarverkefnum stjórnvalda hafi nú þegar tekist að þekja um tuttugu prósent landsins með skógi. Markmiðið er að árið 2050 verði þessi tala komin upp í 42%. Ekki er svosem nein ástæða sýnileg til að efast um þessar tölur auk þess sem alþjóðabankinn hefur séð ástæðu til að vekja athygli á þessu starfi og bent á að Kína sé eitt fárra landa í heiminum þar sem skógarþekja fer vaxandi.

Óbreyttir borgarar í Kína hafa gróðursett um 56 milljarða trjáplantna í Kína undanfarin áratug samkvæmt upplýsingum frá kínverskum stjórnvöldum sem breska blaðið The Guardian tók trúanlegar. Árið 2009 var ræktaður nýskógur á nærri sex milljónum hektara lands. Það er svæði sem nemur meira en hálfu flatarmáli Íslands sem er 10,3 milljónir hektara. Al Gore, Nóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur orðað þetta sem svo að Kínverjar rækti 2,5 sinnum fleiri tré árlega en öll önnur lönd heims samanlagt.

Eins og eðlilegt má teljast gengur þó á ýmsu í þessu verkefni. Ekki eru allir bændur sáttir við að þessar nýju ræktunarplöntur, trén, skuli ekki gefa af sér árlegar tekjur eins og hrísgrjónaplöntur eða aðrar kornplöntur. Bent hefur verið á það einnig að líffjölbreytni sé lítil í nýju skógunum og mikið notað af dýrmætu vatni. Sums staðar hafa verkefnin verið illa skipulögð og lítið orðið úr verki. Samt sem áður virðist sem skógræktarverkefni kínverskra stjórnvalda sé stórmerkilegt dæmi um hverju yfirvöld ríkis geta áorkað ef viljinn er fyrir hendi.


Moldrok í Taívan
Mynd: Wikimedia Commons/阿爾特斯

Guli drekinn beislaður

Loks er áhugavert að nefna verkefni sem er aðallega frumkvæði aðgerðarsinna sem áður var sendiherra Suður-Kóreu í Kína. Sá heitir Byong Hyon Kwon og stofnaði árið 2001 samtökin Future Forest til að berjast gegn eyðimerkurmyndun. Hann upplifði á eigin skinni hið gríðarlega moldrok sem kallað er Guli drekinn og leggst stundum yfir Beijing, leggur þykkt ryklag yfir borgina og veldur íbúunum hjarta- og öndunarfærakvillum en veldur líka tjóni í heimalandi hans, Kóreu. Byong Hyon Kwon var sannfærður um að ef ekkert yrði að gert myndi moldrokið ógna byggð á gervöllu meginlandi Asíu. Nú þegar hefur verið ræktað þétt skógarbelti, sextán kílómetra langt og 500 metra breitt, til að hægja á vindinum og stöðva framrás Kubuqi-eyðimerkurinnar. Samtökin hafa ekki úr nema einni milljón Bandaríkjadollara að spila á ári en hafa samt náð að gróðursetja 6,2 milljónir trjáplantna á undanförnum 8 árum. Þótt þarna sé eyðimörk er töluverð úrkoma og stutt í Gulafljót þannig að skógrækt er vel möguleg og lifun gróðursettra plantna hefur verið um 80%.

Hér er svo fróðleg grein um málefnið:
Degradation and restoration of forest ecosystems in China