Benjamín Örn Davíðsson í fullum skógarhöggsklæðum
Benjamín Örn Davíðsson í fullum skógarhöggsklæðum

Svo sem flestum framleiðendum trjáplantna mun vera kunnugt hefur Skógrækt ríkisins hætt innflutningi á trjáfræi, af ástæðum sem fram koma síðar í þessum pistli.  Enn eru þó til miklar birgðir af fræi af fjölmörgum tegundum og kvæmum í frægeymslum stofnunarinnar á Mógilsá og verða þær til sölu meðan birgðir endast.  Gildandi fræskrá, þar sem lista yfir þessar birgðir er að finna, er birt á vefsíðu Skógræktar ríkisins og er listinn uppfærður og leiðréttur eftir þörfum.  Skógrækt ríkisins mun hinsvegar áfram stunda framleiðslu á úrvalsfræi af birki og lerki í gróðurhúsum á Vöglum og Hallormsstað og einnig mun stofnunin safna trjáfræi innanlands eftir því sem unnt er.  Þetta heimafengna fræ mun áfram verða til sölu hjá stofnuninni.

Ástæður þess að Skógrækt ríkisins dró sig út úr innflutningi trjáfræs eru fjölmargar.  Þar ber fyrst að nefna að ríkisvaldið hefur lagt að stofnuninni að draga sig út úr rekstri og sölu sem er í  samkeppni við einkaaðila.  Um áratuga skeið var Skógrækt ríkisins sá aðili sem ræktaði mest af trjáplöntum og, ásamt Skógræktarfélagi Íslands, gróðursetti flestar plöntur.  Það þótti því rökrétt og heppilegt að Skógrækt ríkisins sæi um mestallan innflutning á trjáfræi  til Íslands, enda var Skógræktin í góðu sambandi við þær stofnanir, fyrirtæki og fræðimenn á útlöndum sem gátu útvegað það fræ sem hentaði. 

Núorðið er bróðurparturinn af skógarplöntum gróðursettar í einkalönd og plöntuframleiðslan er í höndum einkaaðila.  Skógrækt ríkisins ræktar aðeins plöntur til eigin nota og þar af leiðandi hefur stofnunin takmarkaða þörf fyrir innflutt trjáfræ eftir þær breytingar sem orðnar eru á framkvæmd nýskógræktar. Einnig hefur eftirlit með innfluttu trjáfræi færst frá Skógrækt ríkisins til Aðfangaeftirlitsins, sem hefur aðsetur á Rannsóknastofnun Landbúnaðarins við Keldnaholt í Reykjavík.  Innflytjendur trjáfræs þurfa að leita til Aðfangaeftirlitsins til að fá leyfi til að flytja inn erlent trjáfræ. Hins vegar skal ítrekað að Skógrækt ríkisins mun selja útlent fræ á meðan núverandi birgðir endast og heldur áfram að selja fræ af innlendum  trjám.
 

Hægt er að finna upplýsingar um fyrirtæki sem höndla með trjáfræ í öðrum löndum á netinu og undirritaður hvetur menn til að leita þar.  Til dæmis má nefna www.rngr.net þar sem má finna ýmsar upplýsingar sem varða frækaup.  Á næstunni verður samin skrá yfir hentugustu kvæmi fyrir íslenska skógrækt.  En á meðan sá listi er ekki tilbúinn er sjálfsagt að þeir sem telja sig þurfa upplýsingar um frækaup leiti til starfsmanna Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Íslands og starfsmanna landshlutaverkefnanna í skógrækt.  (Sjá upplýsingar um landshlutaverkefnin, smellið hér.


Til að auðvelda ræktendum að afla erlends trjáfræs hefur eftirfarandi skrá yfir erlenda frækaupmenn verið samin. Skráin er langt frá því að vera tæmandi og tekur aðeins til þeirra fyrirtækja sem Skógrækt ríkisins hefur skipt við á síðustu árum. Smelltu hér og kíktu á frækaupmenn.