Nemendur í Karlasmiðju Námsflokka Reykjavíkur sem sóttu LÍS fræðslu s.l. haust kynna sér nú grenndarskóga í borginni, kortleggja gerð þeirra og hvernig þeir eru notaðir í skólastarfi. Námið er uppeldis- og félagsfræðitengt. Þeir munu bera saman einstaka grenndarskóga, staðsetningu þeirra og sögu, skógargerðir og aðstöðu sem byggð hefur verið upp til útináms. Skoðaðir verða nokkrir ólíkir Grenndarskógar og safnað samræmdum upplýsingum sem síðan verða bornar saman við grenndarskóg Ártúnsskóla í Elliðaárdalnum en hann verður notaður til viðmiðunar og þar verður einnig kafað dýpra í skráningu einstakra þátta við gerð nytjaáætlunar fyrir þann grenndarskóg.Nemendum Karlasmiðjunnar finnst kærkomið að komast út í náttúruna og vinna þar að hagnýtum verkefnum.

Á myndinni má sjá tvo nemendur Karlasmiðjunnar velta fyrir sér álagi á gróður í grenndarskógi Leikskólans Rauðhóls og Norðlingaskóla í Björnslundi nú í vikunni.

Mynd og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins