Séð til Sandár á úrugum haustdegi í þjóðskóginum á Skriðufelli Þjórsárdal. Ljósmynd: Pétur Halldórss…
Séð til Sandár á úrugum haustdegi í þjóðskóginum á Skriðufelli Þjórsárdal. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Ríkið hefur verið sýknað af kröfu Símans sem gerði tilkall til veiðiréttar vegna spildu úr landi Skriðufells í Þjórsárdal sem fyrirtækið á. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að vegna skógræktar á jörðinni hefði hún verið í fullum búrekstri þegar spilda Símans var tekin út úr henni og því hefði verið í gildi bannregla um aðskilnað veiðiréttar frá bújörðum. 

Vísir segir frá málinu á vef sínum 28. nóvember. Jörðin Skriðufell í Þjórsárdal er ríkisjörð í umsjón Skógræktarinnar og þar er stór og myndarlegur þjóðskógur. Hektararnir sextíu sem Síminn á nú voru teknir út úr jörðinni árið 1999 og afhentir Landsímanum sem þá var og hét. Dómsmálið nú snerist um þá kröfu Símans að fyrirtækið skyldi eiga tilkall til veiðiréttar fyrir landi sínu sem liggur að Sandá í Þjórsárdal. Málflutningur Símans var byggður á fornri reglu í íslenskum rétti um að veiðiréttur í stöðuvatni eða straumvatni fylgdi landi. Samkvæmt þágildandi lögum gilti þó bannregla um að ekki mætti skilja veiðirétt frá bújörð. Síminn taldi að jörðin hefði ekki verið bújörð á árinu 1990 því þar hefði ekki verið neinn búskapur. Héraðsdómur Reykjavíkur félst ekki á það álit í dómi sínum enda hefði verið stunduð umfangsmikil skógrækt á jörðinni á þessum tíma og hún því í fullum búrekstri. Dómurinn telur með öðrum orðum engan vafa á því leika að skógrækt sé fullgild búgrein. 

Fram kemur í frétt Vísis að í niðurstöðu héraðsdóms sé vísað í að tilgangurinn með umræddu banni hafi frá upphafi verið sá að sporna við því að landkostir jarða í landbúnaðarnotum skertust. Vilji löggjafans hafi verið skýr um að heppilegast væri að veiðin fylgdi öðrum landsnytjum og að sá sem stundaði búskap á jörðinni og hefði önnur landnot hennar nyti veiðinnar einnig.

Héraðsdómur telur að sýnt hafi verið fram á að Skógræktin hafi verið með umfangsmikinn búrekstur í formi skógræktar þegar Síminn eignaðist landspilduna. Umrædd bannregla hafi því verið í gildi og óheimilt að skilja veiðirétt í Sandá frá jörðinni Skriðufelli. Ríkið var því sýknað af kröfum Símans.

Texti: Pétur Halldórsson