Í síðustu viku var haldið námskeiðið Jól í útinámi fyrir starfandi grunnskólakennara í Reykjavík í samstarfi Náttúruskóla Reykjavíkur og Lesið í skóginn-verkefni Skógræktar ríkisins. Námskeiðið var haldið í útistofunni í Heiðmörk við Elliðavatn.
Settar voru upp þrjár stöðvar: Á þeirri fyrstu, Ull og ævintýri, varunnið með ull og efni úr skóginum um leið og Auður Óskarsdóttir sagði ævintýri. Á annari stöð var farið í gegnum útieldun með jólabragði sem Helena Óladóttir sá um. Á þeirri þriðju sýndi Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, hvernig má nota grannt og grænt (ferkst) skógarefni til að búa til jólaskraut, skartgripi og vindhörpur. Í verkefnin voru notaðir árssprotar af víði, ösp, reynivið og birki. Einu áhöldin sem notuð voru, voru greinaklippur og litlir handborar, auk blómavírs og leðurreima. Námskeiðið var fullbókað og komust færri að en vildu.

Á næstunni verður svo haldið sams konar námskeið fyrir leikskólakennara í Reykjavík.


Texti og mynd: Ólafur Oddson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins