frett_17112006_1

Þó ekki sé nema miður nóvember eru starfsmenn Skógræktar ríkisins víða um land langt komnir með að fella og flytja til byggða torgtré sem prýða stræti og torg. Skógrækt ríkisins fellir á hverju ári um 150 torgtré af ýmsum stærðum allt frá 3-5 m trjám upp í tæpra 17 m há tré. Er þetta ein af stærri tekjulindum Skógræktar ríkisins. Frost undanfarinna daga gerir þó skógarhöggsmönnum erfitt fyrir því í miklum kuldum er hættara við að trén skemmist við fellingu eða í flutningum, enda greinar trjánna stökkar. Á Hallormsstað hefur t.d. öllum trjáfellingum verið frestað þar til hlánar.

 

Á meðfylgjandi mynd sem Hrafn Óskarsson tók er verið að lesta tvö 10-11 m tré sem felld voru á Tumastöðum.