Nú er kominn sá tími árs að smásalar á jólatrjám eru farnir að skoða jólatrjáareiti Skógræktarinnar. Í vikunni kom starfsfólk Garðheima í heimsókn í Haukadal til að líta á jólatré, en Garðheimar eru í hópi stærstu smásöluaðila á íslenskum jólatrjám. Markmið heimsóknarinnar var m.a. að leiðbeina starfsfólki Skógræktarinnar um val á jólatrjám og upplýsa um óskir viðskiptavina. Jólatrén líta vel út eftir gott sumar og virðist sem ryðsveppur sem kom upp í rauðgreni síðasta ár sé nánast horfinn. Þess má geta að engin eiturefni eru notuð við ræktun jólatrjánna og ákaflega lítill áburður, svo segja má að íslensk jólatré séu umhverfisvænni kostur en t.d. innflutt jólatré.