Grímuklæddir skógarbændur og starfsmaður Skógræktarinnar innan um iðjagræn íslensk jólatré sem eru s…
Grímuklæddir skógarbændur og starfsmaður Skógræktarinnar innan um iðjagræn íslensk jólatré sem eru sérlega falleg á litinn þetta árið. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Stafafura, blágreni, rauðgreni, fjallaþinur og lindifura eru þær tegundir jólatrjáa sem til sölu verða laugardaginn 19. desember í Samfélagssmiðjunni á Egilsstöðum. Þessi litli markaður er örlítil sárabót fyrir jólamarkaðinn Jólaköttinn sem er árlegur viðburður eystra en fellur niður í ár vegna faraldursins. 

Síðastliðin 14 ár hafa skógarbændur á Héraði og Skógræktin á Hallormsstað selt jólatré á jólamarkaðnum „Jólakettinum“ á Valgerðarstöðum í Fellum. Vegna COVID-19 var ekki það ekki í boði vegna fjöldatakmarkana að þessu sinni. Í stað þess selja aðilar jólatré tvo laugardaga fyrir jólin í samfélagssmiðjunni á Egilsstöðum, þar sem áður var rekin gróðrarstöðin Blómabær. Fyrsti laugardagurinn var um síðustu helgi og gekk vel. Næsta sala er laugardaginn 19. desember frá kl. 13 til 18. Fjölmargar tegundir eru í boði, stafafura, blágreni, rauðgreni, fjallaþinur og lindifura. Að auki er seldur arinviður og jólagreinar. Mjög góður litur er á jólatrjánum í ár að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Austurlandi.

Jafnframt ber að nefna að skógarbændurnir Helgi Bragason og Heiðveig Agnes Helgadóttir á Setbergi í Fellum bjóða líka fólki að koma og velja sér jólatré úti í skógi.

Texti: Þór Þorfinnsson

 Auglýsing markaðarins