Þessa daganna er verið að fella jólatré um land allt.  Flest heimilistré eru tekin á Suðurlandi líkt og áður.  Samkvæmt Hreini Óskarssyni skógarverði eru 1400 heimilistré tekin í hans umdæmi og u.þ.b. 30 torgtré.  Flest tré fara á höfuðborgarsvæðið sem von er, en að sögn Hreins kaupa íbúar Suðurlands hærra hlutfall íslenskra trjáa.  Mest er fellt af rauðgreni 800 tré, stafafuru 400 og 200 stykki af blágreni.  Suðurlandsdeild stendur fyrir veglegri kynningu á íslenskum jólatrjám í Smáralind þar sem fólk getur tekið þátt í getraun um íslensk jólatré.  Verður þetta kynnt nánar á næstu dögum. 

Á Austurlandi er tekja jólatrjáa með hefðbundnum hætti, heimilistré eru um 1000 og dálítið af torgtrjám að sögn Þórs Þorfinnssonar skógarvarðar.  Að venju skaffa þeir austanmenn jólatré verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, og í ár er það 7 metra Fjallaþinur (Sapinero, Colorado) sem gróðursettur var 1963 í Hallormsstaðaskógi.  Vinabær Egilsstaða í Færeyjum, Rúnavík fær einnig torgtré úr sama skógi, að þessu sinni blágreni.

Á Norðurlandi eru tekin 200 heimilistré í löndum Skógræktarinnar að sögn Sigurðar Skúlasonar skógarvarðar, þar af um helmingur stafafura.  Skógræktarfélag Eyfirðinga útvegar Norðlendingum flest torgtrén og eru aðal smásöluaðili heimilstrjáa á Akureyri.  Jólatrjáatekja einstaklinga og skógræktarfélaga eykst með hverju ári að sögn Sigurðar. Á Vöglum er framleitt mikið af arinvið og er góður markaður fyrir þá skógarafurð.

Birgir Hauksson skógarvörður á Vesturlandi segir mest tekið af torgtrjám í hans umdæmi, aðallega úr Stálpastaðaskógi í Skorradal, en einnig eitthvað úr Jafnaskarðsskógi og Norðtunguskógi.  Sem dæmi þá fær Reykjanesbær torgtré frá Stálpastöðum, 13 metra hátt Sitkagreni (Cordova, Alaska) gróðursett 1961.
Á myndinni má sjá 13 metra tréð flutt niður úr hlíðum Stálpastaða.  Talsverð kúnst getur verið að ná stærstu trjánum óskemmdum úr skóginum.  Þau eru spiluð aftan á dráttarvél og hífð upp þannig að þau dragist ekki eftir jörðinni.  Myndin sýnir hlutföll trésins við dráttarvélina.
Sérstaka umfjöllun um jólatré er að finna hér á síðum skogur.is, þar sem Þröstur Eysteinsson greinir frá helstu eiginleikum tegundanna.