Sunnudaginn 14. desember s.l. komu fjölmargir gestir í Haukadalsskóg í Biskupstungum og völdu sér jólatré. Vinsælasta jólatréð í ár var stafafura enda er hún barrheldin og ilmar sérlega vel.

Var þetta í fyrsta skipti sem fólki er formlega boðið að koma og velja sér jólatré í Haukdalsskógi. Var þetta gert í samvinnu við Hótel Geysi og fóru skógargestir flestir í jólahlaðborð í hótelinu þegar þeir höfðu valið sér tré.

Veður var sérlega gott og ekki spillti fyrir að tveir jólasveinar komu í heimsókn á fjórhjólum sem þeir höfðu nappað sér hjá fjórhjólaleigunni í skóginum. Er stefnt að því að halda slíkan dag ár hvert í skóginum enda voru allir aðilar mjög ánægðir með daginn.

Starfsfólk Skógræktarinnar þakkar fólki kærlega fyrir komuna.

Meðfylgjandi myndir sem Sigurður Örn Sigurðsson tók segja meira en mörg orð um stemninguna í skóginum.