Þó enn séu um tveir mánuðir til jóla eru kóngulærnar í Fljótshlíðinni þegar byrjaðar að skreyta trén. Í högunum ofan við Tumastaði í Fljótshlíð mátti líta þessar sitkagreniplöntur. Var engu líkara en þær hefðu verið skreyttar með ,,englahári".

Ljóst er að þessar skreytingar eru spuni voðkóngulóa, líklega sortulóar, enda fann ljósmyndarinn svartar kóngulær á trjánum sem minna mjög á sortuló. Þessar kóngulóartegundir spinna oft mikinn vef á haustin og var það talið boða harðan vetur þegar slíkt sást. Stangast sú spá þó á við spár veðurfræðinga.