Margt var um manninn í skemmunni á Vöglum á jólamarkaðnum 2015. Mynd: Helen Jónsdóttir.
Margt var um manninn í skemmunni á Vöglum á jólamarkaðnum 2015. Mynd: Helen Jónsdóttir.

Enn meiri fjölbreytni verður á jólamarkaðnum í Vaglaskógi þetta árið en var í fyrra þegar markaðurinn var haldinn í fyrsta sinn. Fleiri hafa nú skráð sig fyrir söluborðum og verður ýmislegt spennandi í boði til jólahalds og jólagjafa auk jólatrjáa, greina og annars varnings úr skóginum.

Margt var um manninn á jólamarkaðnum í Vaglaskógi í fyrra og því var ákveðið að blása aftur til markaðsdags þetta árið. Stefnt er að því að þetta verði að hefð í skóginum framvegis enda gott tækifæri fyrir heimafólk í Þingeyjarsveit og nálægum héruðum til að upplifa skógarstemmningu á vetri, koma saman og finna eitthvað fallegt og nytsamlegt fyrir jólin, til dæmis þingeyska list- og handverksmuni.

Auk fjölbreytts varnings á söluborðum verður einnig hægt að njóta ljúfra veitinga. Nemendur í Stórutjarnaskóla reiða fram kaffi og meðlæti og safna þannig í ferðasjóð sinn. Jólamarkaðurinn í Vaglaskógi verður haldinn í starfstöð Skógaræktarinnar á Vöglum laugardaginn 10. desember kl. 13-17.

Vert er einnig að minna á Jólaköttinn, árlegan jólamarkað sem haldinn er í Barra á Valgerðarstöðum í Fellum á Fljótsdalshéraði. Jólakötturinn verður að þessu sinni haldinn laugardaginn 17. desember.

Velkomin í skóginn!

Texti: Pétur Halldórsson