Níu skógarbændur seldu jólatré á markaðnum. Hér er einn þeirra, Jóhann Þórhallsson í Brekkugerði, að…
Níu skógarbændur seldu jólatré á markaðnum. Hér er einn þeirra, Jóhann Þórhallsson í Brekkugerði, að sýsla við blágrenitré.

Níu skógarbændur seldu jólatré auk Skógræktarinnar og söluborð fleiri en nokkru sinni

Aldrei hafa fleiri sótt hinn árlega jólamarkað Jólaköttinn sem haldinn var laugardaginn 17. desember í húsnæði Barra á Valgerðarstöðum í Fellum. Talið er að vel á þriðja þúsund manns hafi komið til að sýna sig og sjá aðra, versla til jólanna og njóta skemmtunar sem í boði var.

Söluborð voru líka fleiri en áður á markaðnum og ef til vill eru mestu tíðindin þau að nú seldu níu skógarbændur jólatré á markaðnum auk Skógræktarinnar sem að venju var með sitt af hverju úr skóginum til sölu, þar á meðal jólatré.

Allir voru í jólaskapi, segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað enda lék veðrið við Austlendinga og marautt á vegum. Rússasúpan sem alltaf er á boðstólum á markaðnum rann ljúflega niður og ketilkaffið sem er ómissandi líka. Kaupa mátti hangiket, skötu, harðfisk, rótarávexti og margt fleira í hátíðarmáltíðina, mikið úrval var af handverki, til dæmis úr íslenskum viði og hreindýraleðri, austfirskar bækur og tónlist og margt fleira.

Meðfylgjandi myndir tók Þórunn Hálfdanardóttir á markaðnum.





Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þórunn Hálfdanardóttir