Veggtré við Miðvang 2-4 á Egilsstöðum. Þar upphófst sá siður fyrir mörgum árum að setja tré sem voru…
Veggtré við Miðvang 2-4 á Egilsstöðum. Þar upphófst sá siður fyrir mörgum árum að setja tré sem voru ber öðrum megin upp við húsveggi. Þannig geta tré orðið jólatré sem hafa staðið þétt upp við önnur tré í skóginum og eru því ekki falleg allan hringinn. Slík tré fengu hið virðulega heiti veggtré og slík njóta nú vaxandi vinsælda við verslanir og önnur fyrirtæki á Egilsstöðum. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir.

Árlegi jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður á Valgerðarstöðum í Fellum á Héraði laugardaginn 14. desember. Þar verða um sextíu seljendur með ýmsan varning, þar á meðal Skógræktin. Starfsfólk skógarvarðarins á Hallormsstað fellir um 600 jólatré að þessu sinni og torgtré þaðan skreyta nú þéttbýlisstaði allt frá Höfn í Hornafirði til Þórshafnar á Langanesi. En veggtré njóta líka vaxandi vinsælda á Egilsstöðum. Hvað er nú það?

Siá siður að setja upp veggtré barst yfir götuna að Miðvangi 1 og nú eru veggtrén orðin einkennandi í jólaskreytingum miðbæjarins á Egilsstöðum. Ljósmynd: Bergrún Arna ÞorsteinsdóttirFyrir allmörgum árum fór húsfélagið að Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum, þar sem aðalskrifstofa Skógræktarinnar er til húsa ásamt fleirum, að setja upp svokölluð veggjólatré á bygginguna á aðventunni. Svo vel þótti takast til að siðurinn breiddist yfir götuna til byggingarinnar á móti. Fyrir rúmum tveimur árum hafði Þjónustusamfélagið á Héraði, félag verslunar og þjónustu á Egilsstöðum og nágrenni, samband við Skógræktina á Hallormsstað og vildi kynna verslunarmönnum þá hugmynd að skreyta meira með jólatrjám verslanirnar. Félagið, sem vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum verslunar, ferðaþjónustu og þjónustufyrirtækja, tók að sér að senda bréf í verslanirnar og kynna hugmyndina. Fyrsta árið voru sett upp tæp 80 tré sem skreyttu Egilsstaðabæ en í ár eru þau orðin 133 talsins.

Hluti þessara trjáa er svokölluð veggjólatré. Oftast eru þetta rauðgrenitré en veggtré geta þó verið af fleiri tegundum. Í þetta eru valin tré sem staðið hafa þétt upp við önnur tré í skóginum og eru því hálfber þeim megin. Þau eru því ekki líkleg til að verða jólatré heima í stofu en njóta sín vel ef þau eru fest upp á vegg og skreytt ljósum.

„Egilsstaðatréð“ til Færeyja

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður segir að þetta árið séu felld álíka mörg jólatré og í fyrra, um það bil 600 talsins. Stærsti hluti þeirra er sendur til Akureyrar í jólatrjáasölu Sólskóga en afgangurinn er seldur á heimamarkaðnum á Austurlandi. Stór tré hafa verið send í þorp og bæi á Austurlandi allt frá Höfn í Hornafirði og norður á Þórshöfn á Langanesi. Stærsta tréð sem fellt var á Hallormsstað að þessu sinni var um 11 metra hátt og fór á Eskifjörð. Þá fór tæplega 6 metra tré til Færeyja sem hefðbundin gjöf Fljótsdalshéraðs til vinabæjar síns, Runavíkur. Um leið og sá siður er að leggjast af að vinabæir í útlöndum sendi jólatré til Íslands er dæmið því að snúast við. Spurning hvort íbúar Runavíkur tala um „Egilsstaðatréð“ líkt og talað er um „Óslóartréð“ í Reykjavík.

Bergrún segir að tíðarfarið hafi verið mjög hagstætt að undanförnu til að höggva jólatré. Aðeins hafi þurft að hliðra til vegna frosts í síðustu viku þar sem jólatré séu ekki felld ef frost fer niður fyrir 2-3 gráður.

Um 60 seljendur á Jólakettinum

Fram undan er á Héraði hinn árlegi jólamarkaður, Jólakötturinn, sem að venju fer fram að Valgerðarstöðum í Fellum, rétt við Fellabæ. Þar verða um 60 seljendur með mikið úrval af varningi fyrir jólahaldið, ýmislegt matarkyns, handverk og fleira en meðal annars verða til sölu jólatré, jólagreinar og fleira frá Skógræktinni og þar má búast við að skógarbændur verði líka með jólatré og ýmislegt fleira úr skógum sínum. Að markaðnum standa Skógræktin og Félag skógarbænda á Austurlandi í samvinnu við nokkur fyrirtæki og fleiri.

Jólakötturinn verður opinn frá klukkan ellefu til fjögur á laugardag.

Auglýsing fyrir Jólaköttinn 2019

Texti: Pétur Halldórsson