Belgjurtir, ávaxtatré, skógarauðlind og skaðvaldar

Skógræktarfólk vill fremur en nokkuð annað fá góða skógræktarbók í jólagjöf og þetta árið er vert að nefna fjórar sem koma sterklega til greina fyrir þessi jól.

Af þessum fjórum bókum er ein glæný bók um belgjurtir sem bæta jarðveg og hjálpa til við uppgræðslu lands, önnur um ávaxtatré sem auka fjölbreytnina í trjáræktinni og geta gefið ávexti og ber, sú þriðja með alhliða fróðleik um skógrækt og skógarnytjar en sú fjórða er aukin og endurbætt handbók um skaðvalda á trjám og vistkerfi skóga.Skógarauðlindin - ræktun, umhirða og nýting 
heitir bók sem kom út á síðasta ári á vegum verkefnisins Kraftmeiri skógur. Eins og segir á bókarkápu er bókinni ætlað það hlutverk að gefa yfirlit yfir helstu atriði sem hyggja þarf að við ræktun skóga. Farið er yfir undirbúning og skipulagningu og helstu framkvæmdaatriði í ræktun og umhirðu. miðað við reynslu og aðstæður hér á landi. Einnig eru kynntar fjölbreyttari útfærslur go aðferðir við trjá- og skógrækt en tíðkast í hefðbundinni timburframleiðsluskógrækt. Þetta er bók fyrir virka skógareigendur og þá sem vilja verða það. 

Í bókina skrifa margir af helstu sérfræðingar landsins um skógræktarmál. Fyrirmynd hennar er sænska bókin Nya tiders skog - Skogsskötsel för ökad tillväxt sem kom út á vegum sænskra skógareigenda árið 2008. Bókina má meðal annars kaupa hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og annað hvort hringja í síma 433-5000 eða senda tölvupóst á netfangið ritari@lbhi.is


Heilbrigði trjágróðurs - Skaðvaldar og varnir gegn þeim 
er endurskoðuð og aukin útgáfa samnefndrar bókar frá 1997eftir þá Guðmund Halldórsson, rannsóknarstjóra Landgræðslunnar og Halldór Sverrisson, sérfræðing í plöntusjúkdómum og trjákynbótum á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Eldri útgáfan hefur verið ófáanleg um árabil og hafa margir beðið endurútgáfu hennar með óþreyju. Í þessari nýjui er sérstakur viðbótarkafli sem nefnist Skógarvistkerfið og er eftir Eddu Sigurdísi Oddsdóttur, sérfræðing í jarðvegslíffræði, vistfræði og heilbrigði skóga á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. 

Á bókarkápu segir að þetta sé aðgengileg og gagnleg handbók, ætluð þeim sem rækta tré sér til ánægju og nytja og öðrum sem hafa áhuga á náttúru Íslands. Hún bæti úr brýnni þörf því ýmsir nýir trjáskaðvaldar hafi borist til landsins á síðustu árum. Lýst er vistkerfum sk´goa,f jallað um áhrif ýmissa umhverfisþátta á vöxt og viðgang trjágróðurs og gerð almenn grein fyrir meinsemdum á trjám og runnum. Þá er farið ítarlega yfir helstu rsjúkdóma og meindýr sem herja á trjágróður á Íslandi, um 70 tegundir alls, og skaðvöldunum lýst í máli og myndum. Í bókarlok er fjallað um varnarkerfi trjáa og aðgerðir til að draga úr skaða á trjám. 

Iðunn gefur bókina út og hún fæst á öllum helstu bóksölustöðum.


Belgjurtabókin - Tré, runnar og blómjurtir af ertublómaætt
eftir Sigurð Arnarson, skógræktarmann og kennara, er sjöunda bókin í bókaflokkum Við ræktum sem Sumarhúsið og garðurinn gefur út. Sigurður fjallar um belgjurtir af þekkingu og reynslu sem garðeigandi og fyrrverandi skógarbóndi. Í bókinni er ítarleg og vönduð umfjöllun um hina stóru og fjölbreyttu ætt niturbindandi plantna sem er jöfnum höndum nefnd belgjurtaætt og ertublómaætt á íslensku. Innan þessarar ættar eru tré, runnar og blómjurtir sem gæddar eru þeim eiginleika að geta nýtt gerla til að binda nitur andrúmsloftsins sér til hagsbóta. Slíkar plöntur framleiða meira nitur en þær þurfa og veita því út í umhverfi sitt. Þannig spara þær áburðargjöf og stuðla að gróskumeira vistkerfi. Á Íslandi má nýta þær í landbúnaði, skógrækt, garðrækt og landgræðslu. 

Fjallað er um tegundir innan belgjurtaættarinnar sem einhver reynsla er af á Íslandi en einnig aðrar áhugaverðar tegundir sömu ættar sem margar hverjar eru líklegar til að geta þrifist hér á landi. Alaskalúpína er ein þessara tegunda, Hún er umdeild og áberandi á Íslandi en á sér margar hófsamari frænkur sem kunna að vera heppilegar til landbóta og landgræðslu einnig.

Sumarhúsið og garðurinn gefur bókina út og hún fæst á öllum helstu bóksölustöðum.

Aldingarðurinn - Ávaxtatré og berjarunnar á Íslandi

eftir Jón Guðmundsson garðyrkjufræðing er sjötta bókin í bókaflokknum Við ræktum sem Sumarhúsið og garðurinn gefur út. Að sögn útgefanda er þetta einstök bók þar sem Jón fjallar um ræktun ávaxtatrjáa og berjarunna af eigin reynslu og þekkingu. Jón sé löngu landsþekktur fyrir frumkvöðlastarf sitt og góðan árangur í leit að yrkjum ávaxtatrjáa sem ná að þroska aldin hér á landi. Hann er einnig frumkvöðull í leit að heppilegum yrkjum í berjarunnarækt og miðlar þeirri þekkingu hér á einstakan hátt eins og segir enn fremur í kynningu frá forlaginu.

Í fyrri hluta bókarinnar fjallar Jón um sögu, ræktun og reynslu sína af 50 epla-, peru-, kirsuberja- og plómuyrkjum sem hann og aðrir hér á landi hafa reynt í ræktun. Í síðari hlutanumer fjallað um 71 yrki berjarunna sem gefa af sér æt ber og reynslu af þeim hér á landi. Bókin er ríkulega myndskreytt og af þeim eru 138 ljósmyndir teknar á Íslandi og þrjár erlendis. Í bókinni eru 43 nýjar teikningar og skýringarmyndir eftir Jón Baldur Hlíðberg teiknara sem gefa efninu aukið vægi.

Sumarhúsið og garðurinn gefur bókina út og hún fæst á öllum helstu bóksölustöðum.

Texti: Pétur Halldórsson

Mynd af jólapakka: Cristmas Stock Images