Úr skóginum í Jórvík í Breiðdal. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson
Úr skóginum í Jórvík í Breiðdal. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Nýjar rannsóknir á áhrifum skógræktar á lífríkið

(úr Bændablaðinu, 24. maí 2005)

Í rannsóknaverkefninu SKÓGVIST eru könnuð áhrif nýskógræktar á jarðveg, vöxt trjáa, kolefnishringrás og fjölbreytileika gróðurs, smádýra og fugla. Verkefnið er unnið í samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Fram kemur m.a. í niðurstöðum að litlar sem engar breytingar hafa orðið á sýrustigi jarðvegs undir barrskógum í samanburði við íslenska birkiskóga á sama aldri.

Í byrjun voru rannsóknirnar á Fljótsdalshéraði, þar sem skóglaust land var borið saman við birki- og lerkiskóga á mismunandi aldri. Sambærilegar rannsóknir fara nú fram í Skorradal, þar sem skóglaust land er borið saman við birki-, greni- og furuskóga. Um 80% árlegrar gróðursetningar á Íslandi er með þessum fjórum trjátegundum.

Bjarni Diðrik Sigurðsson (S.r.) og Ásrún Elmarsdóttir (NÍ) segja að SKÓGVIST hafi þegar skilað umtalsverðum niðurstöðum, sem að miklu leyti eru ný þekking á lífríki skóga og á umhverfisáhrifum skógræktar hér á landi. Í því sambandi má nefna að litlar sem engar breytingar hafa orðið á sýrustigi jarðvegs undir barrskógum í samanburði við íslenska birkiskóga á sama aldri. Það á því það sama við um barrskóga á Íslandi og mýrarnar, þessi vistkerfi eru ekki eins súr og sambærileg vistkerfi á meginlandi Evrópu. Skýringuna má rekja til sérstakra eiginleika íslensks eldfjallajarðvegs og þess að hér er súr mengun minni.

Þessar niðurstöður, auk nýrra upplýsinga um fuglalíf, smádýralíf, gróðurfar og sveppi, verða kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður dagana 19.- 21. júní í Reykholti. Ráðstefnan er opin öllum og frekari upplýsingar er að fá á heimasíðunni www.skogur.is/page/affornord eða hjá Eddu Oddsdóttur í síma 4702000.