Í síðustu útgáfu vefrits tmaritsins Scandinavian Journal of Forest Resrearch er greint frá því að verkefnið ?Plant protection by beneficial soil organisms? hafi hlotið styrk frá SNS (the Nordic Forest Research Cooperation Committee).  Þetta verkefni fjallar um samspil ýmissa jarðvegslífvera og áhrif þess á líf og þrif trjáplantna.  Okkur skógræktarmönnum hættir til að líta á tré sem einvörðungu það sem upp úr grasinu stendur.  Ef sá hluti er eitthvað veiklulegur má vera að við hendum áburðarlúku á tréð en annars gefum við ekki mikinn gaum að því sem undir sverðinum býr.  Ofan í moldinni eru þó örlög trésins oft ráðin.  Ræturnar lifa og hrærast innanum fjölda lífvera, sumar eru trénu lífsnauðsynlegar, aðrar geta reynst banvænar.  Einstöku sinnum verðum við vör við þessar hulduverur þegar plöntur fölna upp og deyja og nánari skoðun leiðir síðan í ljós að rætur plöntunnar eru uppétnar.  Þar eru ranabjöllulirfur á ferð (sjá mynd).  Rannsóknir hér hafa sýnt að aðrar jarðvegslífverur geta leikið stórt hlutverk við að halda þeim skaðvaldi í skefjum og um það snýst þetta verkefni fyrst og fremst.  

Markmið verkefnisins er því að ákvarða samspil helstu lykilþátta í jarðvegi á völdum svæðum í birkivistkerfum á norðurslóðum.

Framkvæmd þess verður í þremur þrepum; 1)  Velja tegundir/stofna nytsamra jarðvegsörvera.  2)  Kanna samspil þessara örvera við; i) birkiplöntur og ii) skordýralirfur sem lifa á rótum birkiplantna.  3)  Gera líkan af þessu samspili og reyna það í; (a)  tilraunastofu og (b) útitilraun.

Gildi verkefnisins er margþætt.  Í fyrsta lagi hefur það tvíþætt vísindalegt gildi.  Það eykur; a) þekkingu á nytsömum jarðvegsörverum á norðurslóðum og b) skilning á samspili jarðvegslífvera innbyrðis og áhrifum þess samspils á vistkerfi uppvaxandi birkiskóga.  Til lengri tíma litið getur verkefnið einnig haft umhverfislegt og hagnýtt gildi þar eð unnt væri að nýta niðurstöður þess við endurheimt birkiskóga.  Bættur árangur við endurheimt birkiskóga gæti síðan dregið úr kostnaði við slíkar framkvæmdir.

Hér er á ferðinni samstarfsverkefni Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, Skógræktar Landsins í Færeyjum, Landbúnaðarháskólans í Kaupmannahöfn og Háskólans í Helsinki.  Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá Tæknisjóði RANNÍS, Framleiðnisjóði og NARP (the Nordic Artic Research Programme). 

Heildarstyrkveiting til verkefnisins þessu ári eru um 7,5 milljónir króna.  Íslensku þátttakendurnir í verkefninu eru Guðmundur Halldórsson og Edda Sigurdís Oddsdóttir og verður þetta doktorsverkefni hennar við Háskólann í Helsinki.  Guðmundur er verkefnisstjóri.

Verkefnið var kynnt á ráðstefnunni "Northern tree-line forests and heaths; Production, herbivory and land use" í Aberdeen síðast liðið sumar.

Myndin sýnir ranabjöllulirfu (Otiorhyncus larvae).